Lífið

Völd og titlar verða eftir úti

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Gunný segir fólk á öllum stigum samfélagsins sækja svett.
Gunný segir fólk á öllum stigum samfélagsins sækja svett. visir/gva
Fólk sem fer óhefðbundnar leiðir í lífinu hefur alltaf vakið áhuga minn. Það er langskemmtilegasta fólkið,“ segir Gunný Ísis Magnúsdóttir, mastersnemi í þjóðfræði.

Gunný hefur lagt áherslu í námi sínu á að rannsaka jaðarmenningu, með tilliti til valds og menningar í grasrótarmenningu. Hún hefur samhliða náminu rekið gallerí ásamt eiginmanni sínum, Tolla Morthens, að Hólmaslóð 2 og eytt síðastliðnum þremur árum í að útbúa heimildarmynd um svitahofsmenningu á Íslandi, oftar kallað svett, ásamt tökumanninum Jóni Má Gunnarssyni. Nú í mánuðinum stendur til að frumsýna myndina, sem er hluti af útskriftarverkefni Gunnýjar.

Andlegt anarkí sem heillar

„Það ríkir ákveðið andlegt anarkí í svitahofinu sem ég finn að á svo vel við mig,“ útskýrir Gunný og heldur áfram. „Svitahofið hefur verið stundað hér á landi í um það bil þrjátíu ár og hópurinn sem stundar svett, eins og það er gjarnan kallað, fer vaxandi og verður sífellt fjölbreyttari. Í upphafi var þetta eingöngu fólk sem tengdist nýaldarviðhorfum, en nú velja sífellt fleiri sér þessa leið til andlegrar iðkunar. Það er svo miklu skemmtilegra að stútfylla hausinn af boðefnum og samskiptum við fólk sem fer óhefðbundnar leiðir í lífinu, en öðrum efnum,“ útskýrir Gunný og hlær.

Hefðbundið svett gengur þannig fyrir sig að farnar eru fjórar umferðir inn og út úr tjaldi, þar sem er mikill hiti. Við hverja umferð eru sungnir söngvar sem leiða athöfnina áfram í tjaldinu, en söngvarnir falla allir að hreinsun anda og líkama. Athöfnin getur tekið hátt í þrjá klukkutíma hverju sinni.

Notaði efni til sjálfheilunar

Gunný segir fólk af öllum stigum samfélagsins sækja svett, en vissulega sé mikið um að fyrrverandi fíklar sæki sér þessa leið til heilunar.

„Ég held að það sé engin tilviljun. Þetta er hópur fólks sem leitar eftir leiðum til að bæta líf sitt. Allflestir sem leiða svitahofin hér á landi eru fyrrverandi fíklar og það hefur auðvitað áhrif líka. Þessi hópur kýs oft að fara óhefðbundnar leiðir og er heillaður af þessari andlegu leið,“ útskýrir hún og segist sjálf hafa tekið ákvörðun um að lifa andlegu lífi áður en hún fór að stunda svitahofið.

„Ég held líka almennt séð að margir sem upplifa sársauka eða ofbeldi á ævinni leiti í andleg málefni og í sjálfsvinnu. Sú var raunin með mig. Ég hef nefnilega alltaf verið leitandi, síðan ég man eftir mér. Leitandi eftir einhverju sem gæti leyst úr flækjum í mér, sem ég veit núna að eru tengdar áföllum úr æsku minni. Þegar ég var yngri fór ég að nota hugbreytandi efni í tilraun til sjálfsheilunar. Það virkaði reyndar ágætlega til að byrja með, að fá tímabundna útgönguleið út úr sjálfri mér, en síðan fóru afleiðingarnar að verða of miklar og kvölin varð alltaf meiri og meiri,“ segir Gunný sem sótti sér meðferð árið 1995 og hefur verið edrú allar götur síðan.

„Eftir að ég varð edrú fór ég að skoða ýmislegt sem tengist andlegum málum og meðal annars leitaði ég í svitahofið. En ég hef aldrei getað tilheyrt neinum andlegum söfnuði. Ætli ég sé ekki of mikill anarkisti til þess,“ segir Gunný og hlær. „Reyndar vil ég tilheyra 12 spora söfnuði. Hann er líka í eðli sínu anarkí þó svo að fólk vilji oft setja einhvern trúarsafnaðarstimpil á 12 spora samtök. Þau hreinsa sig sjálf af því jafnóðum.“

Gunný er gift Tolla myndlistarmanni. Þau kynntust árið 1996 og giftu sig árið eftir.visir/gva
Aldrei dauð stund

Gunný er gift Þorláki Hilmari Morthens, sem landsmenn þekkja sem myndlistarmanninn Tolla Morthens.

„Við kynntumst 1996 og giftum okkur árið eftir. Við höfum allar götur síðan verið saman í þessari andlegu leit – en ekki endilega verið að gera það sama í þeim efnum. Hann er mjög skemmtilegur ferðafélagi í gegnum lífið. Ætli fyrrverandi svilkona mín hafi ekki hitt naglann á höfuðið þegar hún sagði um Tolla að hann væri bara þannig gerður að það væri aldrei dauð stund þegar hann væri annars vegar. Það reyndist rétt hjá henni, meira að segja eftir öll þessi ár. Það er alltaf stuð.“



Sjálfskoðuninni lýkur aldrei

En aftur að svettinu, þessari ótrúlega framandi athöfn sem blaðamaður verður sífellt áhugasamari um. Gunný lýsir því þannig að svitahofið líki einna helst eftir móðurkviði.

„Þátttakendur þurfa að beygja sig og skríða á fjórum fótum inn í tjaldið. Inni í tjaldinu er svo mikill raki og myrkur. Í svett-athöfninni segja þátttakendur skilið við fortíðina hverju sinni og endurfæðast, þó ekki bókstaflega og ekki til þess að verða eitthvað annað eða nýtt, heldur frekar til að tengjast upprunalegum kjarna sínum. Á þann hátt kveðja þátttakendur það „gamla“ og öðlast nýtt upphaf á táknrænan hátt í þökk og virðingu við forfeðurna og móður jörð,“ útskýrir hún, hæfilega alvarleg. „Svitahofið er bara algjörlega einstakt andlegt ferðalag. Það er staður ákveðinnar manndómsraunar. Fólk fær tækifæri til að finna hjá sér nýtt úthald, hugrekki og styrk. Þetta er ótrúlega öflugur vettvangur til sjálfskoðunar.“

Gunný segir engar tvær upplifanir úr svitahofinu eins. „Í hverju svetti kemur ný reynsla – það eru engin tvö svett eins, en hvert og eitt þeirra færir mann einhvern veginn nær þekkingunni um sjálfan sig. Aftur á móti er hægt að líkja þekkingunni um sig sjálfan við endamörk alheimsins – sjálfskoðun lýkur í rauninni aldrei – en í hvert skipti kemst maður aðeins nær því að vita hver maður er,“ útskýrir hún og bætir við. „Ég hef heldur aldrei farið í svitahof þar sem ekki hefur myndast falleg orka á milli þeirra sem taka þátt. Það fallegasta við svettið er hversu ólíkur hópur fólks getur tengst í gegnum þessa athöfn, stjórnmálamenn, meðlimir í mótorhjólasamtökum og grunnskólakennarar hugleiða og syngja saman í svetti, í algjörri einingu, þar sem allt þetta sem skiptir máli fyrir utan hofið á ekki við. Allir titlar og öll völd eru skilin eftir fyrir utan hofið,“ heldur Gunný áfram og bætir við að það sé óhætt að segja að svettið sé eitt mesta áhugamál þeirra hjóna og vina þeirra. 

En ertu þá trúuð í hefðbundnum skilningi eða ertu andlega þenkjandi? Og hver er munurinn þar á? 

„Í dag trúi ég, já. En trú hefur oft verið tengd við trúarbrögð og sumt fólk er viðkvæmt fyrir því. Það vill þá kannski frekar tala um sig sem andlega þenkjandi. Ég skil það því ég var þannig líka, en ekki lengur. Mér er alveg sama núna. En ég hef alveg pælt í þessu með trúarbrögðin og andúðina gagnvart þeim. Ég held að fyrir suma búi trúarbrögð og til að mynda kirkjur eða aðrar trúarlegar byggingar yfir svo miklu valdi. Þegar þú hefur verið beittur valdi þá hefur það áreiðanlega fælingaráhrif. Það er allavega ein hlið á málinu, en auðvitað eru fleiri ástæður sem hægt er að tíunda fyrir andúð gagnvart trúarbrögðum. Í mínu tilfelli var þetta ástæðan. Mér leið alltaf illa í kirkjum, til dæmis. En það var í þessari eilífu andlegu leit minni sem ég fór að skoða sögu mína í tengslum við ofbeldi og neyslu með þerapista. Það var þá sem ég komst einhvern veginn í betri tengsl við sjálfa mig og fór að trúa,“ útskýrir Gunný. „Á endanum get ég svo vonandi sagt: Ég veit hver ég er, en það er klárlega lokamarkmiðið.“

Útilokar ekki fleiri heimildarmyndir

Heimildarmyndin um svett er sú fyrsta úr smiðju Gunnýjar sem getur vel hugsað sér að búa til fleiri heimildarmyndir. 

„Það var mjög áhugavert fyrir mig, sem hef fram að þessu verið þátttakandi í svitahofinu, að standa utan við það og horfa á athöfnina í gegnum linsuna. Þá helst að sjá hvað fólkið, athöfnin, náttúran og öll umgjörðin er falleg þegar maður rammar það inn í mynd. Svo hefur öll rannsóknarvinnan í tengslum við svitahofið dýpkað skilning minn og aukið virðingu mína fyrir því hvað þetta stendur fyrir. En ég hugsa að ég klári að sýna þessa áður en ég fer að vinna að þeirri næstu,” svarar hún þegar blaðamaður spyr hvort fleiri myndir séu í pípunum.

„Ef af henni verður væri áhugavert að skoða betur ákveðin málefni í tengslum við fíkn og ofbeldi,“ segir Gunný að lokum, sem vill greinilega ekki gefa of mikið upp að sinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.