Jólasveinar meðal okkar Sigurður Árni Þórðarson skrifar 1. nóvember 2014 10:00 Hverjir ætli séu Giljagaur, Þvörusleikir og Kertasníkir samtíðar? Vísir Jólasveinarnir eru á leiðinni og svo koma jólin. Sveinarnir eru af ýmsum sauðahúsum. Kannski spegla þeir menningargerðir? Til eru skandinavískir nissar, sem eru gjarnan stríðnispúkar. Ameríska kláusa sjáum við í draumamyndum Disney. Síðan eru til íslensku leppalúðarnir, sem kannski eru áhugaverðastir þegar grannt er skoðað. Jólasveinaímyndir fyrri tíðar skemmta, en þær eru líka gluggi að veruleikatúlkun og trúarlífi, sem ástæða er til staldra við.Norrænir sveinar Upphaf íslensku jólasveinanna má líklega rekja til vana, sem urðu undir í baráttu við heiðin goð og þá löngu fyrir kristni. Þeir eru því leifar breytinga í trúmálum. Tröllin í þjóðtrúnni eru náskyld jólasveinum og Grýla var móðir þeirra. Það þarf því ekki að hafa mörg orð um, að íslensku sveinarnir eru með öllu óskyldir hollenska biskupinum og gjafaranum Nikulási, sem síðar varð að heilögum Kláusi. Þann fjólubláa og síðan skærrauða, hvítskeggjaða biskup hafa amerískir sölumenn magnað með dyggri hjálp höndlara margra þjóða. Íslenskir jólasveinarnir gáfu aldrei neitt og voru ekki í neinu sambandi við kristilegt siðgæði, samfélagsábyrgð og gjafmildi. Þeir færðu aldrei gæsku og velferð í bæinn. Það er kannski skuggsælni, sem gerir þá svo merkilegt íhugunarefni.Afætur og óheillakarlar Jóhannes úr Kötlum gerði ráð fyrir, að jólasveinarnir hafi verið þrettán, en ekki "einn og átta" eins og segir í kvæði, sem sungið er á jólaböllum barna. Talan þrettán var ekki tilviljun, heldur óhappatala um langan aldur. Sveinarnir komu einn og einn til byggða, sem var ógæfulegt og tákn hins afbrigðilega. Til samanburðar má minna á, að lærisveinar Jesú fóru tveir og tveir saman, sem er tákn hins góða og samstöðu manna. Maður styrkir mann og heldur að heilbrigði, þetta er að gæta bróður síns. En einfararnir, jólasveinarnir, komu í mannheim til að spilla, skemma og valda óskunda. Tveir fyrstu jólasveinarnir, Stekkjarstaur og Giljagaur, komu ekki í híbýli mannanna heldur réðust að skepnunum, lífsgrundvelli fólks. Búsmalinn var undirstaða atvinnulífsins, eins og nútímapólitíkusar myndu segja. Stekkjarstaur hrelldi kindur og hinn síðari fór í fjósið og gerði peningi og vinnufólki illt. Fyrst var vegið að undirstöðum og ytri ramma, en síðan fóru sveinarnir að sækja að heimilinu sjálfu. Stúfur, Þvörusleikir og bræður þeirra stálu öllu matarkyns í húsum og þeir voru sérhæfðir! Sérhæfing er því engin nútímauppfinning. Börn og fullorðnir urðu fyrir aðkasti. Jafnvel heimilisdýrin voru ekki sett hjá, því Askasleikir stal innansleikjum, sem dýrum voru ætlaðar. Hurðarskellir leitaðist við að hindra svefn vinnulúinna manna. Síðasti jólasveinninn, Kertasníkir, gerði hinstu atlögu að jólakomunni. Þegar ljóshátíðin mikla var að ganga í garð, reyndi fulltrúi myrkursins að stela kertum úr bænum. Kertastuldurinn varðar hvorki meira né minna en tilraun til að hindra komu jólanna. Kertin og jólaljósin voru og eru tákn um, að heimurinn er ekki lengur myrkvaður táradalur heldur staður vona og þegar dýpst er skoðað, veruleiki þess að Guð kemur í heiminn og heldur vörð um lífið. Á jólanótt voru jólasveinarnir aðgerðalausir, útslegnir í ljósaflóði guðskomunnar, en síðan fóru þeir að drattast á brott.Lífsbarátta og ábyrgð Heimur hinna lágu torfbæja, þunnu þekju og ljóslitlu híbýla er að baki. Sú veröld, sem speglast í þjóðsögum okkar, ljóðum og trúarlífi var veröld óvissu, sífelldrar baráttu og aðgæslu. Aðseðjandi öfl sóttu í mat og mátt. Líf fólks var ótryggt. Með það í huga verður að skoða og skilja sögu jólasveinanna. Þeir sóttu að undirstöðum, í skepnuhjörðina, mat og hjálparefni fólks. Jólasveinarnir eru því ímynd lífsbaráttu og glímu við að láta ekki myrkrið ná völdum. Sagan um þá var áminning um, að huga þyrfti vel að dýrum, passa þyrfti matinn og alla umgjörð mannlífs. Allir skyldu leggjast á eitt að tryggja að myrkrið næði ekki að ráða og kyrkja. Ljósið skyldi fá að koma í heiminn, einnig í lágan bæ sem skotið var út undir ysta haf, eins og Jón Vídalín komst að orði. Táknskynug kynslóð eldri tíðar trúði ekki á jólasveinanna. Fólk vissi vel að sögurnar um þessa skrítnu sveina voru ekki sögur um raunverulegar verur, heldur sögur um dýpri gildi. Þetta fólk var vant að vinna úr táknmáli og táknvef. Það skildi að þetta voru kennslusögur, uppeldissögur og áminningar um aðgæslu í lífinu, bæði í hinu innra sem hinu ytra og undirbúnings í andanum.Eru jólasveinar hér eða í þér? Aðstæður hafa breyst. Húsakynnin eru betri en áður og atvinnulífið er með ólíku sniði. En er víst að heimurinn sé svo breyttur, að aðeins platjólasveinar með bómullarhýjung á vélsleðum fari um? Er atvinna okkar allra gulltryggð? Er lífsbjörgin okkar án aðsóknar? Eru ferðir okkar tryggar og farkostir einnig? Hverjir eru gæslumenn hagsmuna þinna? Hvernig stjórna þeir, sem eiga fyrir fólki og fjármunum að sjá? Eru engir jólasveinar á ferð? Er jólaundirbúningur þinn algerlega snurðulaus? Er engin streita í samlífi fjölskyldunnar þinnar? Er enginn, sem reynir að narra þig og plata á þessum sölutíma? Er alveg víst að fjárhagur þinn hinum megin við jólin verði jafntryggur og fyrir? Ef þú þarft að hafa áhyggjur af einhverjum af þesum þáttum, er sótt að þér úr einhverri átt. Staldraðu við og reyndu að gera þér grein fyrir hvað það er sem hrellir. Hverjir eru jólasveinarnir? En spurðu þig líka þeirrar spurningar, hvort jólasveinn sé jafnvel innan í þér!?Hverjum tekur þú á móti? Íslendingar eiga merkilega spekisögu fyrir jólaundirbúninginn, skemmtilega jú jú, og jafnvel nokkuð kaldlynda líka. En fyrst og fremst er sveinasagan öll ótrúlega raunsæ. Yfir það sést okkur oft í hraða og erli aðventudaganna. Sannleikur um lífið verður ekki pakkaður inn. Alvaran er sú, að ef þú ekki staldrar við og spyrð þig hverjir séu jólasveinar samtíðarinnar, er ekki víst að þú upplifir jólin í fyllingu sinni. Hvað er að, hvað kreppir að atvinnu, heimilum og þínum innri friði og gleði? Reyndu að sjá hver er Giljagaur, Þvörusleikir og Kertasníkir samtíðar. Hvernig væri að nýta aðventuna til að undirbúa, vænta og bíða jólanna með því að tala um það sem er að baki öllu táknmálinu, sem er orðið svo verslunarvætt. Hvernig væri að nota aðventuna til aðgæslu og undirbúnings hugar og hjarta? Hverjum tekur þú á móti: Jólasveinunum, sem taka frá þér ljósið, eða sveini jólanna sem gefur þér lífsljós?Dr. Sigurður Árni Þórðarson (s@kirkjan.is) er verkefnisstjóri á sviði guðfræði og þjóðmála á Biskupsstofu og prestur í Hallgrímskirkju. Jól Mest lesið Jólasveinar ganga um gólf Jól Hugleiðingar um aðventu Jól Svona gerirðu graflax Jól 15 metra hermaður Jól Guðdómleg ostakökufyllt jarðarber Jól Svið í jólamatinn Jól Nýr ilmur frá L´Occitane Jól Jólagleðin við völd - myndir Jól Aðventan boðar komu jólanna Jól Steiktar rjúpubringur á kremuðu grænkáli með bláberjum og gráðosti Jól
Jólasveinarnir eru á leiðinni og svo koma jólin. Sveinarnir eru af ýmsum sauðahúsum. Kannski spegla þeir menningargerðir? Til eru skandinavískir nissar, sem eru gjarnan stríðnispúkar. Ameríska kláusa sjáum við í draumamyndum Disney. Síðan eru til íslensku leppalúðarnir, sem kannski eru áhugaverðastir þegar grannt er skoðað. Jólasveinaímyndir fyrri tíðar skemmta, en þær eru líka gluggi að veruleikatúlkun og trúarlífi, sem ástæða er til staldra við.Norrænir sveinar Upphaf íslensku jólasveinanna má líklega rekja til vana, sem urðu undir í baráttu við heiðin goð og þá löngu fyrir kristni. Þeir eru því leifar breytinga í trúmálum. Tröllin í þjóðtrúnni eru náskyld jólasveinum og Grýla var móðir þeirra. Það þarf því ekki að hafa mörg orð um, að íslensku sveinarnir eru með öllu óskyldir hollenska biskupinum og gjafaranum Nikulási, sem síðar varð að heilögum Kláusi. Þann fjólubláa og síðan skærrauða, hvítskeggjaða biskup hafa amerískir sölumenn magnað með dyggri hjálp höndlara margra þjóða. Íslenskir jólasveinarnir gáfu aldrei neitt og voru ekki í neinu sambandi við kristilegt siðgæði, samfélagsábyrgð og gjafmildi. Þeir færðu aldrei gæsku og velferð í bæinn. Það er kannski skuggsælni, sem gerir þá svo merkilegt íhugunarefni.Afætur og óheillakarlar Jóhannes úr Kötlum gerði ráð fyrir, að jólasveinarnir hafi verið þrettán, en ekki "einn og átta" eins og segir í kvæði, sem sungið er á jólaböllum barna. Talan þrettán var ekki tilviljun, heldur óhappatala um langan aldur. Sveinarnir komu einn og einn til byggða, sem var ógæfulegt og tákn hins afbrigðilega. Til samanburðar má minna á, að lærisveinar Jesú fóru tveir og tveir saman, sem er tákn hins góða og samstöðu manna. Maður styrkir mann og heldur að heilbrigði, þetta er að gæta bróður síns. En einfararnir, jólasveinarnir, komu í mannheim til að spilla, skemma og valda óskunda. Tveir fyrstu jólasveinarnir, Stekkjarstaur og Giljagaur, komu ekki í híbýli mannanna heldur réðust að skepnunum, lífsgrundvelli fólks. Búsmalinn var undirstaða atvinnulífsins, eins og nútímapólitíkusar myndu segja. Stekkjarstaur hrelldi kindur og hinn síðari fór í fjósið og gerði peningi og vinnufólki illt. Fyrst var vegið að undirstöðum og ytri ramma, en síðan fóru sveinarnir að sækja að heimilinu sjálfu. Stúfur, Þvörusleikir og bræður þeirra stálu öllu matarkyns í húsum og þeir voru sérhæfðir! Sérhæfing er því engin nútímauppfinning. Börn og fullorðnir urðu fyrir aðkasti. Jafnvel heimilisdýrin voru ekki sett hjá, því Askasleikir stal innansleikjum, sem dýrum voru ætlaðar. Hurðarskellir leitaðist við að hindra svefn vinnulúinna manna. Síðasti jólasveinninn, Kertasníkir, gerði hinstu atlögu að jólakomunni. Þegar ljóshátíðin mikla var að ganga í garð, reyndi fulltrúi myrkursins að stela kertum úr bænum. Kertastuldurinn varðar hvorki meira né minna en tilraun til að hindra komu jólanna. Kertin og jólaljósin voru og eru tákn um, að heimurinn er ekki lengur myrkvaður táradalur heldur staður vona og þegar dýpst er skoðað, veruleiki þess að Guð kemur í heiminn og heldur vörð um lífið. Á jólanótt voru jólasveinarnir aðgerðalausir, útslegnir í ljósaflóði guðskomunnar, en síðan fóru þeir að drattast á brott.Lífsbarátta og ábyrgð Heimur hinna lágu torfbæja, þunnu þekju og ljóslitlu híbýla er að baki. Sú veröld, sem speglast í þjóðsögum okkar, ljóðum og trúarlífi var veröld óvissu, sífelldrar baráttu og aðgæslu. Aðseðjandi öfl sóttu í mat og mátt. Líf fólks var ótryggt. Með það í huga verður að skoða og skilja sögu jólasveinanna. Þeir sóttu að undirstöðum, í skepnuhjörðina, mat og hjálparefni fólks. Jólasveinarnir eru því ímynd lífsbaráttu og glímu við að láta ekki myrkrið ná völdum. Sagan um þá var áminning um, að huga þyrfti vel að dýrum, passa þyrfti matinn og alla umgjörð mannlífs. Allir skyldu leggjast á eitt að tryggja að myrkrið næði ekki að ráða og kyrkja. Ljósið skyldi fá að koma í heiminn, einnig í lágan bæ sem skotið var út undir ysta haf, eins og Jón Vídalín komst að orði. Táknskynug kynslóð eldri tíðar trúði ekki á jólasveinanna. Fólk vissi vel að sögurnar um þessa skrítnu sveina voru ekki sögur um raunverulegar verur, heldur sögur um dýpri gildi. Þetta fólk var vant að vinna úr táknmáli og táknvef. Það skildi að þetta voru kennslusögur, uppeldissögur og áminningar um aðgæslu í lífinu, bæði í hinu innra sem hinu ytra og undirbúnings í andanum.Eru jólasveinar hér eða í þér? Aðstæður hafa breyst. Húsakynnin eru betri en áður og atvinnulífið er með ólíku sniði. En er víst að heimurinn sé svo breyttur, að aðeins platjólasveinar með bómullarhýjung á vélsleðum fari um? Er atvinna okkar allra gulltryggð? Er lífsbjörgin okkar án aðsóknar? Eru ferðir okkar tryggar og farkostir einnig? Hverjir eru gæslumenn hagsmuna þinna? Hvernig stjórna þeir, sem eiga fyrir fólki og fjármunum að sjá? Eru engir jólasveinar á ferð? Er jólaundirbúningur þinn algerlega snurðulaus? Er engin streita í samlífi fjölskyldunnar þinnar? Er enginn, sem reynir að narra þig og plata á þessum sölutíma? Er alveg víst að fjárhagur þinn hinum megin við jólin verði jafntryggur og fyrir? Ef þú þarft að hafa áhyggjur af einhverjum af þesum þáttum, er sótt að þér úr einhverri átt. Staldraðu við og reyndu að gera þér grein fyrir hvað það er sem hrellir. Hverjir eru jólasveinarnir? En spurðu þig líka þeirrar spurningar, hvort jólasveinn sé jafnvel innan í þér!?Hverjum tekur þú á móti? Íslendingar eiga merkilega spekisögu fyrir jólaundirbúninginn, skemmtilega jú jú, og jafnvel nokkuð kaldlynda líka. En fyrst og fremst er sveinasagan öll ótrúlega raunsæ. Yfir það sést okkur oft í hraða og erli aðventudaganna. Sannleikur um lífið verður ekki pakkaður inn. Alvaran er sú, að ef þú ekki staldrar við og spyrð þig hverjir séu jólasveinar samtíðarinnar, er ekki víst að þú upplifir jólin í fyllingu sinni. Hvað er að, hvað kreppir að atvinnu, heimilum og þínum innri friði og gleði? Reyndu að sjá hver er Giljagaur, Þvörusleikir og Kertasníkir samtíðar. Hvernig væri að nýta aðventuna til að undirbúa, vænta og bíða jólanna með því að tala um það sem er að baki öllu táknmálinu, sem er orðið svo verslunarvætt. Hvernig væri að nota aðventuna til aðgæslu og undirbúnings hugar og hjarta? Hverjum tekur þú á móti: Jólasveinunum, sem taka frá þér ljósið, eða sveini jólanna sem gefur þér lífsljós?Dr. Sigurður Árni Þórðarson (s@kirkjan.is) er verkefnisstjóri á sviði guðfræði og þjóðmála á Biskupsstofu og prestur í Hallgrímskirkju.
Jól Mest lesið Jólasveinar ganga um gólf Jól Hugleiðingar um aðventu Jól Svona gerirðu graflax Jól 15 metra hermaður Jól Guðdómleg ostakökufyllt jarðarber Jól Svið í jólamatinn Jól Nýr ilmur frá L´Occitane Jól Jólagleðin við völd - myndir Jól Aðventan boðar komu jólanna Jól Steiktar rjúpubringur á kremuðu grænkáli með bláberjum og gráðosti Jól