Skoðun

Þeytum flautur gegn einelti og kynferðisofbeldi

Helga Björk Magnúsd. Grétudóttir og Ögmundur Jónasson skrifar
Þetta er ekki fyrsta greinin sem við undirrituð sendum frá okkur í tilefni af alþjóðlegum degi gegn einelti, 8. nóvember. Upphaflega áttum við samræður um einelti á árinu 2009 þegar annað okkar var heilbrigðisráðherra og hitt aktívisti sem beitti sér fyrir aðgerðum gegn einelti, þar á meðal að komið yrði á raunverulegu samstarfi milli ráðuneyta um að takast á við eineltisvandann í skólum, á vinnustöðum og í þjóðfélaginu. Samráðshópur varð til og síðar var fagráðið sett á laggirnar, sem án efa hefur haft þýðingu málefninu til framdráttar.

Úrræðaleysinu að bráð

Sama má segja um þá aðila aðra sem hafa beitt sér í baráttunni gegn einelti og alla þá einstaklinga sem stigið hafa fram og sagt frá reynslu sinni svo draga megi af henni lærdóma. Slík framganga krefst mikils hugrekkis og er lofsverð.

Þrátt fyrir allt þetta þrífst eineltið og verður oftar en ekki úrræðaleysinu að bráð. Eða viljaleysinu. Staðreyndin er sú að ráðuneyti, stofnanir, skólar og fyrirtæki ráða illa við einelti og kynferðisáreiti. Stundum er neitað að ræða vandann, meðal annars á þeim forsendum að það sé ekki í verkahring viðkomandi að ræða eða takast á við „einstök mál“. Þannig talar fólk á flótta.

Hringjum bjöllum!

Morgundagurinn, 8. nóvember, er hugsaður til að halda okkur við efnið. Þess vegna eru allir sem vettlingi geta valdið hvattir til að hringja bjöllum eða þeyta flautur, um allt land, helst um allan heim, á slaginu 13:00 í sjö mínútur, eina mínútu fyrir hvern dag vikunnar.

Með þessu móti sýnum við táknrænan stuðning við fórnarlömb eineltis og heitstrengingu um að rjúfa þögnina sem hefur lengi umleikið einelti. Við neitum að standa þögul hjá og reynum heldur að hafa góð áhrif á okkar eigið umhverfi. Við leitumst við að bera virðingu fyrir fjölbreytileikanum og beita ekki valdi í samskiptum. Það á við um einelti eins og mörg þjóðfélagsmein að það krefst stöðugrar árvekni að ná árangri í glímunni við þau.

Hringjum bjöllum og þeytum horn klukkan eitt á morgun. Vekjum samfélagið, vöknum sjálf.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×