Skoðun

Mikilvægt er að þakka fyrir vel unnin verk

Ellen Calmon skrifar

Öryrkjabandalag Íslands kom á laggirnar Hvatningarverðlaunum ÖBÍ, árið 2007. Markmið verðlaunanna er að skapa jákvæða ímynd fyrir fatlað fólk og vekja athygli á þeim sem þykja hafa skarað fram úr og endurspeglað nútímalegar áherslur um jafnrétti, sjálfstætt líf og þátttöku fatlaðs fólks í samfélaginu. Þá er verðlaununum ekki síst ætlað að vekja athygli á þeim aðilum eða verkefnum sem stuðla að því að íslenskt samfélag verði raunverulega samfélag fyrir alla.



Eru verðlaunin veitt í þremur flokkum, það er í flokki einstaklinga, fyrirtækja/stofnana og í flokki umfjöllunar/kynningar. Tilnefningar í hverjum flokki eru þrjár talsins. Verðlaununum er ætlað að vera öðrum hvatning til að stuðla að samfélagi fyrir alla ásamt því að efla frumkvæði til nýrra verkefna og hugmyndavinnu í málaflokknum. Fjöldi tilnefninga hefur aukist frá ári til árs og vitund um verðlaunin hefur eflst, en kallað er eftir tilnefningum frá almenningi. Gaman er að geta þess að í einstaklingsflokki hafa Freyja Haraldsdóttir, Guðjón Sigurðsson, Edda Heiðrún Backman og Harpa Dísa Harðardóttir hlotið verðlaunin svo fáeinir séu nefndir.

Verðlaunaafhending fer fram þann 3. desember næstkomandi á alþjóðadegi fatlaðs fólks og er forseti Íslands, hr. Ólafur Ragnar Grímsson, verndari verðlaunanna.



Jákvæðar fyrirmyndir

Ég tel mikilvægt að þakka fólki fyrir vel unnin verk og með þessu móti getum við unnið sameiginlega að því að varpa ljósi á þær jákvæðu fyrirmyndir sem stuðla að einu samfélagi fyrir alla. Því vil ég hvetja þig, lesandi góður, til að taka þér stund og velta því fyrir þér hver hefur skarað fram úr á þessu sviði og senda inn tilnefningu til Hvatningarverðlauna Öryrkjabandalags Íslands fyrir 15. september næstkomandi.



Tilnefningar má senda um rafrænt eyðublað á heimasíðu ÖBÍ, http://www.obi.is/um-obi/hvatningarverdlaunOBI/tilnefningar2014eydublad/. Einnig má senda tilnefningu í bréfpósti.



Vörpum ljósi á jákvæðar fyrirmyndir sem stuðla að einu samfélagi fyrir alla.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×