Menning

Súrrealískt að vera komin inn í skólann

Kristjana Arnarsdóttir skrifar
Anna María Tómasdóttir komst inn í hinn virta Actors Studio Drama School í New York.
Anna María Tómasdóttir komst inn í hinn virta Actors Studio Drama School í New York. Fréttablaðið/daníel
„Ég ákvað bara að láta mig dreyma stórt og sótti um. Þetta er búið að vera mjög súrrealískt,“ segir Anna María Tómasdóttir, sem á dögunum fékk inngöngu í The Actors Studio Drama School í New York en þar fer hún í mastersnám í leikstjórn.

Leiklistarskólinn er á lista yfir þá allra bestu í heiminum en þar hafa heimsþekktir leikarar líkt og Bradley Cooper menntað sig en Al Pacino er listrænn stjórnandi við skólann. Anna María er fyrsti Íslendingurinn sem kemst inn þetta mastersnám. Hún er alls ekki ókunnug leiklistinni en hún hefur unnið að leikmyndum og búningum við hinar ýmsu bíómyndir, sjónvarpsþætti og auglýsingar, ásamt því að hafa sett upp verk, skrifað og leikstýrt.

„Ég er útskrifuð með BA frá Listaháskólanum af braut sem heitir fræði og framkvæmd og það hefur alltaf verið draumurinn að leika, allt frá því að ég var lítil að dandalast með mömmu minni upp í leikhúsi,“ segir Anna María, en móðir hennar er Þórunn Sveinsdóttir búningahönnuður.

The Actors Studio er vel þekkt félag leikara í Bandaríkjunum og virkar eins og eins konar símenntunarfélag, þar sem leikarar og leikstjórar geta viðrað hugmyndir sínar við aðra og fengið álit annarra innan félagsins. Árið 1994 var mastersnámið síðan sett á laggirnar en námið er kennt í Pace háskóla í New York. Anna María vann við tökur á bresku sjónvarpsþáttunum Fortitude sem fóru fram á Reyðarfirði í ársbyrjun en flaug út í prufurnar til New York í einu tökuhléinu. 

„Ég fékk Dóru [Jóhannsdóttur] vinkonu mína og leikkonu sem búsett er í New York til þess að hjálpa mér en það mátti ekki flytja senuna einn. Þetta var mjög löng prufa og við gerðum senuna nokkrum sinnum. Þetta endaði svo með því að þau tóku mig inn í leikaranámið á staðnum. Ég fór svo í viðtal í kjölfarið og þegar þau skoðuðu ferilskrána mína sáu þau að ég hafði líka víðtæka reynslu á öðrum sviðum en leik svo þau spurðu mig hvort ég hefði einnig áhuga á því að fara í leikstjórn en leikstjórarnir starfa mikið með rithöfundunum og leikurunum. Ég ákvað því að slá tvær flugur í einu höggi og læri því að leika og leikstýra,“ segir Anna María, sem heldur út til New York í haust en námið hefst 3. september.

Inside The Actors Studio
Bradley Cooper er einn þeirra sem lærðu við skólann.
Spjallþátturinn Inside The Actors Studio hefur lengi notið gríðarlegra vinsælda en James Lipton stjórnar þættinum Lipton fær til sín þekkt fólk úr leiklistarheiminum og ræðir við það um daginn og veginn.

Áhorfendur í sal, sem allt eru nemendur við skólann, eiga svo möguleika á að spyrja viðmælandann spjörunum úr. Á Youtube má finna mörg skemmtileg innslög úr Inside The Actors Studio.

Þ
ar má meðal annars sjá Bradley Cooper, sem þá var nemandi við skólann, spyrja þá leikreyndu Sean Penn og Robert De Niro út í ákveðin hlutverk.

Þeir Cooper og De Niro áttu síðar eftir leika saman í stórmyndum á borð við Limitless og Silver Linings Playbook, en sú síðarnefnda var tilnefnd til Óskarsverðlaunanna í fyrra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.