Körfubolti

Einar Árni: Verður þá að vera óbreytt í tíu ár

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Einar Árni Jóhannsson.
Einar Árni Jóhannsson. Vísir/Vilhelm
„Til að sjá 4+1 virka þarf hún að haldast í einhvern ákveðinn árafjölda en það er nú bara þannig í þessu núna sem og alltaf að meirihlutinn ræður,“ segir Einar Árni Jóhannsson, fyrrverandi þjálfari Njarðvíkur, um þessa mögulegu reglubreytingu, en Njarðvíkingar mæltu fyrir 4+1-reglunni á ársþingi KKÍ í fyrra.

„Hlerandi körfuboltasamfélagið heyri ég að það sé töluverður áhugi fyrir því að opna fyrir Bosman. Mér finnst það mun betri kostur en að fjölga Könum aftur. Ég skil mjög vel að lið eins og Höttur og KFÍ þurfi á Bosman-spilurum að halda. Ef það á að hreyfa við 4+1 vona ég að þessi leið verði farin og treyst á að menn fari ekki fram úr sér,“ segir Einar.

Mjög góður Bosman-leikmaður segir Einar að sé svona mitt á milli Bandaríkjamanns og Íslendings. Honum finnst þetta góður millivegur að fara, en vill að verði þetta neglt, sættist menn á að breyta hlutunum ekki aftur strax.

„Þetta verður þá að vera óbreytt kannski í tíu ár þannig við getum hætt að tala um útlendingamál. Við þurfum frekar að fara að velta fyrir okkur hlutum eins og þjálfaramenntun, lengja feril þjálfara og geta sent yngri landsliðin okkar í Evrópukeppni á hverju ári. Ég veit að útlendingamál skipta máli en það er annað sem þarf að fara að ræða,“ segir Einar Árni Jóhannsson.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×