Lífið

Hafþór Júlíus leikur í Stundinni okkar

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar
Vel fór á með þeim Góa og Hafþóri Júlíusi á setti.
Vel fór á með þeim Góa og Hafþóri Júlíusi á setti. Mynd/Úr einkasafni
Við erum að kanna sannleiksgildi Íslendingasagnanna. Við tökum fyrir Njálu og ég ákvað að fá hann til að prófa hvort það sé mögulegt að Gunnar á Hlíðarenda hafi hoppað hæð sína í loft upp og svo framvegis,“ segir leikarinn Guðjón Davíð Karlsson, oftast kallaður Gói. Hann er þáttarstjórnandi Stundarinnar okkar og fékk kraftajötuninn Hafþór Júlíus Björnsson til að leika Gunnar á Hlíðarenda.

Stundin okkar er í tökum núna og fer nýja þáttaröðin í loftið næsta vetur.

„Fjöldi leikara kemur fram í þessari nýju þáttaröð. Það er mikil spenna og eftirvænting í loftinu,“ segir Gói en hann vill lítið segja um hverjir aðrir leggja hönd á plóg í barnaþættinum.

„Það er hernaðarleyndarmál enn sem komið er. En þetta verður eitthvað,“ segir Gói. Heimildir Fréttablaðsins herma að leikararnir Jóhann Sigurðarson, Ilmur Kristjánsdóttir, Halldóra Geirharðsdóttir og Sigrún Edda Björnsdóttir komi við sögu í þáttunum. 

Hafþór Júlíus hefur vakið heimsathygli fyrir hlutverk sitt sem Sir Gregor Clegane, eða Fjallið, í sjónvarpsþáttunum Game of Thrones. Vakti hrottafengin slagsmálasena sem sýnd var fyrir stuttu sérstaka athygli þar sem Fjallið barðist við Oberyn prins, betur þekktur sem The Viper.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×