Skoðun

Er trúlofunartímabilinu lokið og komið að næsta skrefi?

Kristinn Þór Jakobsson skrifar
Samvinna og gott samstarf er að mínu mati grunnforsenda þess að sveitarfélög á Suðurnesjum geti vaxið og dafnað. En sameining sveitarfélaganna á svæðinu er mál sem sveitarstjórnarfólk á svæðinu þarf að fara að skoða af fullri alvöru. Við þurfum að horfa til framtíðar með heildarhagsmuni svæðisins alls að leiðarljósi.

Horfum út fyrir boxið

Mjög lítið hefur borið á umræðu um sameiningarmál sveitarfélaganna á Suðurnesjum á kjörtímabilinu. Líklega verða sameiningarmálin ekki kosningamál í næstu sveitarstjórnarkosningum. En þeir bæjarfulltrúar sem verða kosnir í bæjarstjórnir sveitarfélaganna fimm á Suðurnesjum verða að vera tilbúnir til að ræða sameiningarmál af hispursleysi og einurð með opnum huga, laust frá tilfinningum og fordómum. Í þessari endurskoðun felast tækifæri.

Ekki hvort, heldur hvernig

Ef sveitastjórnir óska þess þá getur ráðuneytið veitt þeim heimild í tilraunaskyni til að staðfesta samþykkt um stjórn og fundarsköp sem gerir ráð fyrir öðru stjórnskipulagi en kveðið er á um í sveitarstjórnarlögum. Ég tel að umræða næsta kjörtímabils ætti að snúast um hvernig, ekki hvort sveitarfélögin á Suðurnesjum sameinist.

Málefni sem við þurfum að ræða eru m.a. fjöldi sveitarstjórnarmanna, hvort ráða eigi eða kjósa framkvæmdastjóra sveitarfélagsins beint, kjósa ætti bæjarráð beinni kosningu, breytingar á fyrirkomulagi bæjarstjórnarfunda, fjöldi fastanefnda/-ráða og aukið hlutverk einstakra nefnda eða starfsmanna sveitarfélagsins við daglega stjórn sveitarfélagsins því samfara. Einnig þarf að ræða hvort embætti forseta bæjarstjórnar ætti að vera fullt starf, fjöldi bæjarfulltrúa verði bundinn við íbúafjölda hvers byggðakjarna, aukið íbúalýðræði með íbúafundum og íbúasamráði, nánara samráð um fjárhagsáætlun og önnur verkefni, svo fátt eitt sé nefnt.

Heildarhagsmunir ráði för

Málefnin eru mýmörg og margvísleg og ættu að vera rædd út frá hagsmunum íbúa á Reykjanesi en ekki pólitískum hagsmunum einstakra hópa/svæða. Það gæti reynst öllum íbúum allra sveitarfélaganna hagsbót og styrkur ef sveitarfélögin komast að samkomulagi um framtíðarskipan sameinaðs sveitarfélags. Skort hefur traust milli bæjarstjórna á svæðinu og mikið rætt um að byggja upp traust áður en sameiningarmál verði rædd. Að mínu mati er það fullreynt. Látum vantraustið lönd og leið og opnum fyrir umræðu um hvernig málunum er best farið. Við erum eitt atvinnusvæði, við erum að stórum hluta með sameiginlega þjónustu, eins og Kölku, Fjölbrautaskóla Suðurnesja, DS, HSS o.fl. stofnanir. Tökum næsta skref og hefjum umræðu um sameiningarmál. Orð eru til alls fyrst.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×