Skoðun

Fjárfestingaáætlun fullfjármögnuð

Steingrímur J. Sigfússon skrifar
Það hljóp heldur betur á snærið hjá fjármálaráðherra, ríkissjóði og okkur öllum nú í lok mars þegar Landsbanki Íslands hf. greiddi eiganda sínum arð upp á tæpa 20 milljarða á einu bretti. Samkvæmt ársfjórðungsuppgjöri sem öllum er aðgengilegt á heimasíðu fjármála- og efnahagsráðuneytisins á 19,7 milljarða arðgreiðsla Landsbankans stærstan þátt í að skýra áframhaldandi afkomubata ríkisins milli ára sem að sjálfsögðu er fagnaðarefni. Liðurinn „aðrar tekjur“ í bókhaldi ríkisins hækkar þannig úr 10,5 milljörðum á fyrsta ársfjórðungi 2013 í 28,2 milljarða 2014.

Með samfelldum efnahagsbata síðan 2011 eru hinir almennu skattstofnar ríkisins einnig að skila vaxandi tekjum án þess að skatthlutföllum sé breytt. Er þar á ferðinni vel þekkt þróun sem að sjálfsögðu myndi jafnt og þétt bæta afkomu ríkisins, það er að segja ef tekjur ríkisins væru ekki skertar með öðrum ráðstöfunum á móti. það hefur hins vegar ný ríkisstjórn því miður gert og mun koma fram með fullum þunga á árunum 2015-2016.

En arðgreiðsla Landsbankans til ríkisins nú á dögunum færir okkur aðrar athyglisverðar upplýsingar. Með þessari einu greiðslu væri fjárfestingaáætlun fyrri ríkisstjórnar fullfjármögnuð á árinu 2014 og gott betur þrátt fyrir stórlækkun núverandi ríkisstjórnar á sérstöku veiðigjaldi. Áætlunin byggði á 5,7 milljarða fjármögnun frá sérstöku veiðigjaldi og rúmlega 6,6 milljörðum frá arði eða eignasölu tengt eignarhlutum ríkisins í bönkum. Samtals gerði þannig áætlunin ráð fyrir liðlega 12,3 milljörðum á árinu 2014 til fjárfestinga í samgöngumálum, nýsköpun, rannsóknum og þróun, til eflingar skapandi greina, uppbyggingar ferðamannastaða, græna hagkerfisins o.s.frv.

Allur söngur stjórnarliða á síðastliðnu hausti um að fjárfestingaáætlun fyrri ríkisstjórnar væri ófjármögnuð er hruninn til grunna. Endurtekið og ótal sinnum var sagt: Fjárfestingaáætlunin er ófjármögnuð og því ekkert annað að gera en skerða framlög til dæmis til rannsókna- og tækniþróunarsjóða, til Markáætlunar, til sóknaráætlana landshlutanna, til þjóðgarða og friðlýstra svæða og til uppbyggingar ferðamannastaða (sem ríkisstjórnin hefur klúðrað með ævintýralegum og grafalvarlegum hætti).

Textarnir um ófjármagnaða áætlun sem voru samviskusamlega endurprentaðir í greinargerð fjárlagafrumvarpsins þar sem niðurskurðurinn á hverjum liðnum á fætur öðrum var réttlættur, eldast sömuleiðis illa.

Þolendur ofangreinds niðurskurðar mega hafa þetta í huga. Vandinn er ekki að fjárfestingaáætlunin væri ófjármögnuð og þaðan af síður að verkefnin séu ekki þörf og brýn. Vandinn er stefna núverandi ríkisstjórnar, smæð hennar þegar kemur að öllu sem fyrri ríkisstjórn tengist og fornaldarleg viðhorf til nýsköpunar, umhverfis- og atvinnumála.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×