Skoðun

Ert þú flugvallarvinur?

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir og Greta Björg Egilsdóttir skrifar
Við höfum verið spurðar hvort að við séum hlynntar því að leyfa borgarbúum að kjósa um veru flugvallarins í Vatnsmýri. Það er góð og gild spurning. En í okkar huga þá eru borgarbúar í raun að kjósa um framtíð flugvallarins í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ef núverandi meirihluti heldur velli þá er alveg ljóst að afdráttarlaus afstaða þeirra er sú að flugvöllurinn víki úr Vatnsmýrinni samkvæmt nýsamþykktu aðalskipulagi, hvar svo sem hann mun enda með tilheyrandi kostnaði.

Þó svo að kannanir hafi sýnt að margir Reykvíkingar vilji fá Dag B. Eggertsson sem borgarstjóra þá er ekki hægt að undanskilja þá staðreynd að verði svo þá mun flugvöllurinn víkja fyrir 3 til 5 hæða íbúðabyggingum. Vilji núverandi meirihluta í borginni er að 90% af þéttingu byggðar hér í Reykjavík fram til ársins 2030 fari fram í Vatnsmýrinni, í miðborginni, þ.e við gömlu höfnina, og í Elliðaárvoginum.

Eins og fram kom á hádegisverðarfundi Landssambands sjálfstæðiskvenna þann 6. maí síðastliðinn, sem bar yfirskriftina „Konur til áhrifa“, þá koma um 82% ferðamanna hingað til lands til þess að skoða náttúru landsins. Þess vegna teljum við óhjákvæmilegt að verði innanlandsflugið flutt til Keflavíkur þá muni ferðamaðurinn geta stokkið beint upp í næstu flugvél og út á land og hafi því ekki eins ríka ástæðu til þess að heimsækja höfuðborgina. Verði það niðurstaðan mun flutningur Reykjavíkurflugvallar úr Vatnsmýrinni hafa bein áhrif á rekstur hótela, veitingahúsa og verslana í borginni og alla þá virðisaukandi þjónustu sem byggð hefur verið upp í borginni okkar á undanförnum árum. Það eru því ekki eingöngu þeir sem starfa beint við flugtengda starfsemi sem hafa hagsmuna að gæta hvað varðar veru flugvallarins í Vatnsmýrinni. Þetta eru hagsmunir allra borgarbúa og ekki síður til tryggingar áframhaldandi atvinnu og auknum atvinnutækifærum í Reykjavík. Tryggjum flugvellinum því áfram fastan sess í Vatnsmýrinni með því að kjósa það framboð sem skýrt stendur með vilja Reykvíkinga í þessu mikilvæga máli.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×