Bíó og sjónvarp

Ræðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar
Josh Brolin leikur Joe.
Josh Brolin leikur Joe.
Kvikmyndin Oldboy, með þeim Josh Brolin, Samuel L. Jackson, Elizabeth Olsen og Sharlto Copley í aðalhlutverkum, verður frumsýnd á Íslandi á morgun en myndin er endurgerð suðurkóresku kvikmyndarinnar Oldboy frá árinu 2003.

Myndin fjallar um auglýsingastjórann Joe Doucett sem vaknar upp sem fangi í litlu herbergi en hefur ekki hugmynd um af hverju hann endaði þar. Auk þess veit hann ekkert hvað hann hefur gert af sér.

Joe er haldið föngnum í tuttugu ár og fær ekki að tala við nokkurn mann. Hann hefur samt takmarkað aðgengi að sjónvarpsfréttum þar sem hann fylgist meðal annars með leitinni að sjálfum sér þar til hvarf hans er fallið í gleymsku.

Skyndilega er honum sleppt úr prísundinni og hefndarþorstinn hellist yfir hann.

Þeir sem hafa séð upprunalegu myndina vita að hún tekur mann í afar óvænt ferðalag og kemur endirinn eins og blaut tuska í andlitið á manni. Elizabeth Olsen leikur eitt af aðalhlutverkum og hún sjálf vissi ekki hvernig myndin endaði fyrr en hún horfði á hana á frumsýningunni í New York.

„Ég hef ekki verið jafn hissa og brugðið jafn mikið yfir endi síðan ég sá The Sixth Sense. Enginn spillti þessu fyrir mér. Enginn gaf mér neina vísbendingu um endinn og ég gat upplifað hann eins og auðan striga,“ segir Elizabeth.

Leikstjóri endurgerðarinnar er Spike Lee en upprunalega heyrðust þær sögur að Steven Spielberg myndi leikstýra myndinni og að Will Smith ætti að fara með aðalhlutverkið. Kvikmyndaáhugamenn voru ekki par sáttir við það og sögðu sumir að þeir hefðu verið bænheyrðir þegar kom í ljós að Spike Lee ætti að taka við keflinu. Fyrsta útgáfan sem hann gerði af myndinni var 140 mínútna löng en kvikmyndaverið beitti hann þrýstingi og að lokum klippti hann myndina niður í 105 mínútur. Aðalleikarinn Josh Brolin er hrifnari af löngu útgáfunni og þá er stóra spurningin hvort hún verði ekki gefin út á mynddisk samhliða stuttu útgáfunni.

Leikarinn Choi Min-Sik leikur Oh Dae-Su í upprunalegu myndinni og fer gjörsamlega á kostum.
Hlaðin verðlaunum um allan heim

Oldboy var frumsýnd árið 2003 og heitir á frummálinu Oldeuboi. Hún hefur hlotið fjölmörg verðlaun um heim allan og var meðal annars valin besta erlenda myndin á bresku Independent-kvikmyndaverðlaunahátíðinni og Austin Film Critics-verðlaununum. Í Asíu var hún einnig verðlaunuð og hlaut leikstjórinn Chan-wook Park verðlaun fyrir bestu leikstjórn á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Bangkok. Á kvikmyndaverðlaunahátíðinni í Hong Kong var myndin kosin besta asíska myndin og á Asia-Pacific-kvikmyndahátíðinni fékk Min-sik Choi verðlaun fyrir besta leik og Chan-wook Park fyrir bestu leikstjórn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×