Körfubolti

Jón Arnór sér eftir Peter Öqvist

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Jón Arnór er fremsti körfuknattleiksmaður landsins.
Jón Arnór er fremsti körfuknattleiksmaður landsins. Vísir/Daníel
Jón Arnór Stefánsson spilaði vel í mögnuðum sigri CAI Zaragoza gegn stórveldinu Barcelona í spænsku úrvalsdeildinni í körfubolta um síðustu helgi.

„Ég gaf það út fyrir leikinn á blaðamannafundi að við ættum möguleika á að vinna Barcelona og það fór bara nettur hlátur um salinn. Það var hlegið að mér,“ segir Jón Arnór léttur við Fréttablaðið um þennan merka sigur.

Enn er nóg eftir af tímabilinu á Spáni en eins og staðan er núna myndi Zaragoza mæta Barcelona í fyrstu umferð úrslitakeppninnar. Það er eitthvað sem það vill sleppa við.

„Við setjum stefnuna á fimmta sæti. Það yrði erfitt að mæta Barcelona, Real Madrid eða Valencia sem er að spila mjög vel. Við eigum möguleika á móti öllum hinum liðunum tel ég.“

Jón Arnór verður í eldlínunni með íslenska landsliðinu í sumar sem mætir Bosníu og Bretlandi í undankeppni EM 2015. Þar verður liðið með nýjan þjálfara, Kanadamanninn Craig Pedersen.

„Ég þekki bara ekkert til hans. Ég hef samt heyrt að þetta sé góður og nokkuð traustur þjálfari. Það er kannski aukaatriði. Aðalatriðið er að hann sé góður maður því Peter [Öqvist, fráfarandi þjálfari] var ekki bara fær þjálfari heldur góður maður sem hægt var að leita til,“ segir Jón Arnór sem viðurkennir að hann vildi ólmur hafa Svíann áfram sem landsliðsþjálfara.

„Ég hefði viljað hafa minn mann Peter áfram. Við vorum búnir að ná miklum framförum með hann sem þjálfara. Mér fannst það bara sjálfsagt framhald að hann yrði áfram en það gekk því miður ekki. En það breytir því ekki að ég er mjög spenntur fyrir þessu verkefni í sumar,“ segir Jón Arnór Stefánsson


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×