Bíó og sjónvarp

Ástin gaf honum kjarkinn

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar
Spéfuglinn James Corden leikur Paul Potts í myndinni.
Spéfuglinn James Corden leikur Paul Potts í myndinni.
Kvikmyndin One Chance er frumsýnd á Íslandi á morgun en hún er byggð á ævi söngvarans Paul Potts sem sigraði í þáttunum Britain‘s Got Talent árið 2007.

Áður en Paul sló í gegn var hann utangarðs í litlum iðnaðarbæ. Hann söng hástöfum öllum stundum, sem öðrum strákum í bænum þótti tilefni til að leggja hann í hrottalegt einelti. Hann neyddist líka til að sitja undir háðsglósum föður síns í tíma og ótíma, sem vildi að hann færi að vinna með hinum körlunum í kolanámunum.

Þegar hann varð eldri kynntist hann stúlkunni Julie-Ann á spjallsvæði á internetinu en þau hittust fyrst augliti til auglitis í febrúar árið 2001. Þá öðlaðist Paul kjark til að elta drauminn um að þenja raddböndin á sviði. Paul og Julie-Ann gengu í það heilaga í maí árið 2003.

Það er spéfuglinn og leikarinn James Corden sem fer með hlutverk Pauls, Hann er vel þekktur í Bretlandi og gerði garðinn fyrst frægan þegar hann skrifaði handritið og lék í skemmtiþáttunum Gavin & Stacey. Fyrir frammistöðu sína í þáttunum hlaut hann bresku BAFTA-verðlaunin fyrir besta gamanleik. Þá hefur hann einnig stjórnað þáttunum A League of Their Own og var kynnir á BRIT-verðlaunahátíðinni fyrir stuttu.

Í öðrum hlutverkum eru Alexandra Roach, Julie Walters, Colm Meaney og Mackenzie Crook.

Sló alla út af laginu Það bjóst enginn við því að Paul Potts gæti sungið þegar hann tók þátt í Britain‘s Got Talent.Fréttablaðið/Getty
Stjarna er fædd

Paul Potts fór í áheyrnarprufu í hæfileikaþættinum Britain‘s Got Talent árið 2007 og bjóst enginn við miklu af söngvaranum. Hann söng Nessun dorma og sló vægast sagt í gegn. Dómararnir urðu steinhissa yfir röddinni sem hann bjó yfir og áhorfendur stóðu upp og klöppuðu eftir flutninginn. Horft hefur verið á atriðið á YouTube yfir 120 milljón sinnum og er það eitt af hundrað mest skoðuðu myndböndum á síðunni síðan hún var stofnuð. 

Paul komst í undanúrslit í þættinum þar sem hann söng Time To Say Goodbye sem Andrea Bocelli gerði frægt. Hann komst í úrslitaþáttinn eftir að hann fékk flest atkvæði almennings í sögu þáttarins. Paul söng Nessun dorma í úrslitaþættinum, bar sigur úr býtum og hlaut hundrað þúsund pund í sigurlaun.

)





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.