Skoðun

Ákall til alþjóðasamfélagsins

Jóhanna Sigurðardóttir skrifar
„Ógeðslegt fólk“ voru orðin sem forseti Úganda lét falla um samkynhneigða nýlega. Þetta hljómaði kunnuglega en við Jónína, eiginkona mín, fengum svipuð skilaboð frá Úganda árið 2010 þegar hjónaband okkar vakti heimsathygli. „Samfélag þeirra er búið að vera, þær eru siðlausar,“ var haft eftir talskonu stjórnarflokksins í Úganda. Og svo klykkti hún út með því að segja að hjónaband okkar væri „viðurstyggilegt“.

Maður verður orðlaus að heyra fordómana og hvernig raunveruleikinn er algjörlega afskræmdur, eins og þegar því er haldið fram að samkynhneigðir séu hættulegir samfélaginu, einkum og sér í lagi börnum.

Já, staðan í Úganda er skelfileg og samkynhneigðir þar í landi hafa þurft að búa við hræðileg mannréttindabrot. Fyrir það eitt að elska aðra manneskju þurfa þeir að lifa í stöðugum ótta, sæta miskunnarlausu ofbeldi, grimmd, ofsóknum og kúgun. Og nú hefur lífstíðardómur fyrir samkynhneigð verið lögfestur í Úganda.

Lagasetningin hefur þegar haft þau áhrif að dauðalistar, svartir listar með persónuupplýsingum um hinsegin fólk, eru birtir í götublöðum í Úganda og birting þeirra hefur leitt til árása á þetta fólk og til sjálfsvíga samkynhneigðra.

Alþjóðasamfélagið þarf að bregðast miklu harðar við þessum hrikalegu mannréttindabrotum en það hefur þegar gert. Og Ísland ekki síst, sem á margan hátt hefur verið í fararbroddi í heiminum varðandi sjálfsögð réttindi samkynhneigðra.

Fordæming utanríkisráðherra er ekki nægjanleg. Kröftug ályktun frá stjórnvöldum og Alþingi gegn þessum mannréttindabrotum væri fyrsta skrefið. Síðan þarf að koma frumkvæði stjórnvalda í samráði við önnur norræn ríki um hvernig best væri að beita sér fyrir breiðri alþjóðasamstöðu í málinu.

Íslandsdeild Amnesty International og Samtökin ‘78 gangast þessa daga fyrir sameiginlegu átaki og fjársöfnun í þágu samkynhneigðra í Úganda, m.a. með glæsilegum stórtónleikum í Hörpu í kvöld.

Vonandi styður íslenska þjóðin dyggilega þetta átak. Það væri til fyrirmyndar og myndi skipta miklu máli.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×