Bíó og sjónvarp

Hunsuð á Óskarsverðlaununum

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar
Walt reyndi allt sem hann gat til að sannfæra Helenu.
Walt reyndi allt sem hann gat til að sannfæra Helenu.
Kvikmyndin Saving Mr. Banks verður frumsýnd á Íslandi á morgun en hún fjallar um það þegar Walt Disney ákvað að gera mynd byggða á sögunum um Mary Poppins árið 1938.

Það tók Walt yfir tuttugu ár að telja höfundinn, Helen Lyndon Goff sem skrifaði undir höfundarnafninu P.L. Travers, á að selja sér kvikmyndaréttinn. Því var myndin ekki frumsýnd fyrr en árið 1961.

Það var ekki fyrr en Helen lenti í fjárhagsvanda að hún samþykkti að ræða við Walt. Samt sem áður var hún hörð í horn að taka og fjallar Saving Mr. Banks um þær tvær vikur sem Helen eyddi í Hollywood til að kljást við Walt.

Stórleikarinn Tom Hanks var persónulega beðinn um að leika Walt af forstjóra Disney, Robert A. Iger, en Tom er fjarskyldur frændi Walts. Til að búa sig undir hlutverkið heimsótti hann fjölskyldusafn Walts Disney í San Francisco oft og mörgum sinnum og talaði við marga ættingja meistarans, þar á meðal dóttur hans, Diane Disney Miller. Að sögn Bobs Gurr, samstarfsmanns Walts, náði Tom honum afar vel og táraðist Bob meira að segja þegar hann horfði á myndina.

Emma Thompson leikur Helenu sem lætur ekki vaða yfir sig.
„Hann, ásamt öðrum Disney-goðsögnum sem unnu með honum, var snortinn yfir því hvernig leikstjórinn John Lee Hancock og handritshöfundurinn Kelly Marcel blésu lífi í Walt. Litlar tiktúrur, eins og það að Walt ræskti sig alltaf til að láta fólk vita að hann væri að koma inn í herbergi, bæta sannindum við myndina sem oftast gleymast í verkum sem þessum,“ segir í grein á vefsíðunni The Flickcast – All Things Geek.

Það kom því mörgum í opna skjöldu að myndin hlaut aðeins eina tilnefningu til Óskarsverðlaunanna og það fyrir bestu tónlist. Bjuggust margir við því að Tom yrði tilnefndur sem og leikkonan Emma Thompson sem leikur Helenu. Þá spáðu líka margir gagnrýnendur því að myndin hlyti tilnefningu sem besta myndin.

Auk Toms og Emmu eru það Colin Farrell, Paul Giamatti, Kathy Baker og Jason Schwartzman sem fara með aðalhlutverkin.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×