Bíó og sjónvarp

Coen-bræðurnir hata ketti

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar
Lífið er ekki dans á rósum fyrir Llewyn Davis.
Lífið er ekki dans á rósum fyrir Llewyn Davis.
Nýjasta mynd Coen-bræðranna, þeirra Ethans og Joels, Inside Llewyn Davis, verður frumsýnd á Íslandi á morgun. Myndin gerist um vetur í New York-borg þar sem tónlistarmaðurinn Llewyn Davis berst við að eiga í sig og á.

Félagi hans í tónlistinni, Mike, fremur sjálfsmorð, sólóplata hans Inside Llewyn Davis selst ekkert, hann á engan pening og þarf að sofa á sófanum hjá vinum og kunningjum. Hann reynir hvað sem hann getur til að meika það í tónlistinni og auðvitað blandast vandamál í ástarlífinu inní þá baráttu.

Coen-bræður eru kvikmyndaáhugamönnum ekki ókunnugir en síðasta mynd þeirra, True Grit frá árinu 2010, vakti gríðarlega lukku. Þá eru þeir af mörgum taldir eiga heiðurinn að einni bestu mynd allra tíma – Fargo frá árinu 1996.

Coen-bræður hafa unnið með sama kvikmyndatökumanninum að nær öllum myndum sínum. Sá heitir Roger Deakins en hann gat ekki unnið við Inside Llewyn Davis þar sem hann var upptekinn í tökum á James Bond-myndinni Skyfall. Hinn franski Bruno Delbonnel var fenginn til verksins í hans stað og hlaut nýlega Óskarstilnefningu fyrir kvikmyndatökuna – sína fjórðu á þrettán árum. Roger hefur hins vegar hlotið ellefu tilnefningar til Óskarsins og voru fimm af þeim fyrir myndir úr smiðju Ethans og Joels.

Hér sjást Coen-bræður ásamt Roger Deakins.
Það flækti gerð myndarinnar Inside Llewyn Davis talsvert að köttur leikur stórt hluverk. Coen-bræður ráðfærðu sig við dýraþjálfara og héldu sérstakar áheyrnarprufur fyrir gulan kött. Nokkrir kettir voru valdir og var skipst á að nota þá eftir því hverju þeir voru góðir í. Coen-bræður sögðu við blaðamanninn Terry Gross að það hefði verið afar erfitt að vinna með marga ketti á setti og það hefði endað með því að þeim væri mjög illa við ketti í dag. Þá er aðalleikaranum Oscar Isaac einnig meinilla við ketti vegna þess að hann var einu sinni bitinn af ketti og fékk sýkingu í sárið.

Inside Llewyn Davis var heimsfrumsýnd í maí á síðasta ári á kvikmyndahátíðinni í Cannes og heillaði gagnrýnendur. Þá er hún tilnefnd til tvennra Óskarsverðlauna – fyrir bestu kvikmyndatöku eins og áður segir og bestu hljóðblöndun.

Auk Oscars Isaac eru það Carey Mulligan, Justin Timberlake, John Goodman og Ethan Phillips sem fara með aðalhlutverkin.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×