Skoðun

Stóra verkefnið

Hjálmar Sveinsson skrifar
Þrátt fyrir mikil umsvif á byggingarmarkaði á höfuðborgarsvæðinu árin fyrir hrun blasir við skortur á litlum íbúðum á viðráðanlegu verði í Reykjavík. Á leigumarkaði ríkir neyðarástand. Margar skýrslur hafa verið skrifaðar um mögulegar úrbætur. Nýja ríkisstjórnin er búin að skipa enn eina nefndina.

Ein ástæðan fyrir ástandinu er sú að hér var byggt upp kerfi sem umbunaði fjármálaöflum og verktökum sem byggðu stórar og dýrar íbúðir. Afraksturinn blasir við í lúxusíbúðaturnunum við Skúlagötu.

Kannski er það skýringin á því að margir borgarbúar hafa illan bifur á „þéttingu“ byggðarinnar. Þeir sjá fyrir sér uppbyggingu rándýrra íbúða á miðborgarsvæðinu þar sem almenningur á enga möguleika á að búa. Reynslan sýnir að einmitt það mun gerast verði ekkert að gert. Það er meðal annars þess vegna að nú er verið að vinna að róttækri stefnubreytingu í Reykjavík.

Ný húsnæðisstefna kveður á um að byggðar verði 2.500 til 3.000 nýjar leigu- og búseturéttaríbúðir í Reykjavík næstu 3–5 árin. Gert er ráð fyrir samvinnu við traust húsnæðis- og byggingarsamvinnufélög og verkalýðshreyfinguna. Einnig hefur verið sett af stað hönnun svokallaðra Reykjavíkurhúsa, hagkvæmra fjölbýlishúsa þar sem félagsleg blöndun er tryggð. Stefnt er að byggingu 400 til 800 íbúða í 15–30 húsum á næstu 3 til 5 árum.

Húsnæðisstefnan er byggð á nýju aðalskipulagi fyrir Reykjavík. Þar er lögð áhersla á að húsagerðir og búsetukostir henti öllum félagshópum og allt að fjórðungur nýrra íbúða í borginni verði leiguíbúðir. Slíkar íbúðir eiga einkum að byggjast á miðlægum svæðum þar sem almenningssamgöngur eru góðar. Reykjavíkurborg mun leggja fram lóðir og lönd og annað sem til þarf til að þessi stefna verði að veruleika.

Samfylkingin hefur leitt þessa vinnu í borginni í góðri samvinnu við Besta flokkinn. Samfylkingin hefur líka verið leiðandi á Alþingi í húsnæðisumræðunni. Undirbúningsvinnan hefur verið vönduð og mikil. Nú er kominn tími til að láta verkin tala. Það er stóra verkefni Samfylkingarinnar Jafnaðarmannaflokks Íslands næstu árin.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×