Körfubolti

Heldur sigurganga KR-inga áfram á nýju ári?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Martin Hermannsson og félagar í KR hafa unnið alla deildarleiki sína í vetur.
Martin Hermannsson og félagar í KR hafa unnið alla deildarleiki sína í vetur. Mynd/Stefán
Dominos-deild karla í körfu fer af stað í kvöld eftir jólafríið en fjórir leikir fara þá fram í tólftu umferðinni. Stórleikur kvöldsins er á milli toppliðs KR og Íslandsmeistara Grindavíkur í DHL-höllinni.

KR hefur unnið alla ellefu deildarleiki sína á leiktíðinni. Tvö af þremur liðum sem hafa unnið alla deildarleiki sína fyrir áramót hafa tapað fyrsta leik á nýju ári.

Grindavík (2003-2004) tapaði með níu stigum (95-104) á útivelli á móti Njarðvík og Keflavík (2007-08) tapaði með 22 stigum (76-98) á útivelli á móti Grindavík.

KR hefur einu sinni áður verið í þessari sömu stöðu en KR-ingar unnu 18 stiga útisigur á ÍR (98-80) í fyrsta deildarleik ársins 2009. Fyrsta deildartap KR veturinn 2008-09 var aftur á móti Grindavík í byrjun febrúar.

Tveir „gamlir“ en um leið „nýir“ bandarískir leikmenn fá sína frumsýningu í Borgarnesi í kvöld. Benjamin Curtis Smith spilar þá sinn fyrsta leik með Skallagrími (lék með Þór Þorlákshöfn í fyrra) og Nigel Moore spilar sinn fyrsta leik með ÍR en hann kom til liðsins frá Njarðvík um áramótin.

Tveir aðrir leikir fara fram í kvöld. Það verður nýliðaslagur á Hlíðarenda þar sem Valsmenn taka á móti Haukum og í TM-höllinni í Keflavík taka heimamenn á móti Stjörnunni en það eru sjaldan mikil rólegheit í gangi í leikjum þessara tveggja liða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×