Innlent

Jón Gnarr „volgur“ fyrir forsetaframboði

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
vísir/ernir
Jón Gnarr, fyrrverandi borgarstjóri, segist „volgur“ fyrir því að bjóða sig fram til forseta Íslands. Honum finnst þó ekki tímabært að spá í framboði eða tjá sig um málið af virðingu við embætti forseta Íslands og sitjandi forseta. Þetta sagði hann í þættinum Vikulok á Rás 2 í morgun.

„Það er mikið hringt og mikið spurt. Fólk spyr um þetta eiginlega á hverjum einasta degi,“ sagði Jón.

Þetta er þó ekki í fyrsta sinn sem Jón segist hafa íhugað framboð en í viðtali við bandarísku sjónvarpsstöðina NBC í júní sagðist hann ekki útiloka forsetaframboð. Í nóvember framkvæmdi Fréttablaðið könnun þar sem fram kom að Jón nýtur mests stuðnings Íslendinga sem næsti forseti Íslands. Hann sagði í kjölfarið að hann væri snortinn yfir niðurstöðunum en að þær komi honum þó ekkert sérstaklega á óvart.

„Þegar ég er spurður hvort ég útiloki ekki framboð vefst mér tunga um tönn. Fólk gæti alveg eins spurt hvort ég útiloki að verða kafari. Ég hef aldrei kafað og aldrei spáð sérstaklega í því en ég útiloka það alls ekki að verða kafari,“ sagði Jón í samtali við Fréttablaðið í nóvember.


Tengdar fréttir

Flestir vilja að Jón Gnarr taki við af Ólafi Ragnari Grímssyni

Jón Gnarr, Ólafur Ragnar Grímsson og Ragna Árnadóttir eru þau nöfn sem fólk nefnir helst þegar það er spurt hvern það vilji helst sjá sem næsta forseta Íslands. Skoðanakönnun Fréttablaðsins sýnir að Jón er vinsælli á meðal karla en kvenna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×