Körfubolti

Veðrið bjó til tvíhöfða í Hólminum á morgun

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Berglind Gunnarsdóttir og félagar hennar í Snæfelli mæta Grindavík ekki fyrr en á morgun.
Berglind Gunnarsdóttir og félagar hennar í Snæfelli mæta Grindavík ekki fyrr en á morgun. Vísir/Stefán
Leikur Snæfells og Grindavíkur í Dominos-deild kvenna fer ekki fram í kvöld eins og áætlað var því KKÍ segir frá því á heimasíðu sinni að búið sé að fresta leiknum vegna veðurs.

Leikurinn hefur verið færður yfir á morgundaginn og fer þá fram klukkan 18.00. Vegna þessa þarf að fresta karlaleik Snæfells og Keflavíkur sem fer nú fram klukkan 20.00 á morgun en ekki klukkan 19.15.

Það verður því nóg að gera hjá Inga Þór Steinþórssyni annað kvöld en hann þjálfar eins og kunnugt er bæði karla- og kvennalið Snæfells.

Þjálfarar beggja mótherja liða Inga Þórs annað kvöld eru einnig að þjálfa bæði lið. Karlalið Grindavíkur (Sverrir Þór Sverrisson) spilar hinsvegar ekki fyrr á föstudagskvöldið og kvennalið Keflavíkur (Sigurður Ingimundarson) mætir Val í kvöld.

Það er þó ekki öruggt að hinir þrír leikirnir í tólftu umferð Dominos-deildar kvenna fari fram í kvöld en á heimsíðu KKÍ segir að ákvarðanir um frestanir annarra leikja verða teknar seinna í dag.

Leikir í Domino´s deild kvenna í kvöld:

Haukar-Breiðablik

KR-Hamar

Valur-Keflavík

Snæfell – Grindavík (á morgun klukkan 18.00)






Fleiri fréttir

Sjá meira


×