Sport

Mayweather getur ekki falið sig lengur

Mayweather hefur aldrei tapað á ferlinum.
Mayweather hefur aldrei tapað á ferlinum. vísir/getty
Það lítur út fyrir að þeir Floyd Mayweather og Manny Pacquiao munu loksins stíga saman inn í hringinn á þessu ári.

Mayweather tilkynnti í sjónvarpinu um helgina að hann væri til í að berjast við Pacquiao þann 2. maí á næsta ári.

Þetta hefur verið draumabardagi hnefaleikaáhugamanna um árabil en ekkert hefur orðið af honum hingað til. Meðal annars út af peningum.

„Mayweather er kominn á leiðarenda og getur ekki falið sig lengur. Hann verður að berjast við mig," sagði Pacquiao.

„Ég mun gera mitt besta til þess að þetta verði skemmtilegur bardagi. Við þekkjum öll hans bardagastíl. Flestir af hans bardögum, ef ekki allir, hafa svæft okkur."

Þó svo kapparnir séu enn frábærar hnefaleikamenn þá eru þeir farnir að eldast. Pacquiao er orðinn 36 ára og Mayweather er árinu eldri.

Til stóð að þeir myndu berjast árið 2012 en þá varð ekkert af bardaganum þar sem Mayweather vildi fá miklu stærri hluta af peningakökunni en honum bar. Það skiptir ekki máli lengur.

„Hann má fá þá peninga sem hann vill. Peningar skipta ekki máli lengur heldur snýst þetta um arfleifð. Þetta snýst um að gleðja áhugamennina og það er gott fyrir íþróttina að við berjumst."

Þetta verður líklega verðmætasti bardagi allra tíma og því spáð að í fyrsta skipti verði 200 milljón dollara múrinn rofinn. Meirihluti þeirra peninga fer væntanlega til Mayweather.

Box



Fleiri fréttir

Sjá meira


×