Körfubolti

Tvær eftirminnilegar troðslur Stjörnumanna á úrslitastundu - myndband

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jón Orri Kristjánsson tróð með látum.
Jón Orri Kristjánsson tróð með látum. Vísir/Valli
Stjarnan tryggði sér sigur á Njarðvík og um leið fjórða sætið í Dominos-deild karla í körfubolta eftir frábæran endasprett í fjórða leikhlutanum í gær. Ágúst Angantýsson og Jón Orri Kristjánsson glöddu Garðbæinga með flottum troðslum.

Njarðvíkingar voru skrefinu á undan nær allan leikinn, voru fimm stigum yfir í hálfleik, náðu mest níu stiga forskoti og voru sex stigum yfir fyrir lokaleikhlutann, 63-57. Stjörnuliðið vann hinsvegar síðustu tíu mínútur leiksins 30-17 og tryggði sér sjö stiga sigur, 87-80.

Ágúst Angantýsson og Jón Orri Kristjánsson náðu tveimur eftirminnilegum troðslum á úrslitastundu og kveiktu í sínum mönnum. Þeir gengu báðir til liðs við Stjörnuna fyrir tímabilið og voru happafengur enda kraftmiklir og baráttuglaðir leikmenn.

Ágúst minnkaði muninn í 64-65 þegar hann tróð yfir Dustin Salisbery í hraðaupphlaupi og Jón Orri kom Stjörnuliðinu yfir í fyrsta sinn síðan í fyrsta leikhlutanum þegar hann kom Stjörnunni í 73-71, rúmum þremur mínútum fyrir leikslok.

Hér fyrir neðan má sjá myndband af þessum eftirminnilegu troðslum Stjörnumannanna en leikurinn var sýndur beint á Stöð 2 Sport.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×