Körfubolti

Stólarnir áfram fullkomnir á heimavelli

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
 Svavar Atli Birgisson var flottur í kvöld.
Svavar Atli Birgisson var flottur í kvöld. Vísir/Ernir
Tindastóll verður með fullkominn heimavallarárangur yfir jólin eftir 36 stiga stórsigur á Skallagrími, 104-68, í Dominos-deild karla í kvöld en þetta var lokaleikur liðanna fyrir jólafrí.

Tindastóll, sem er nýliði í deildinni, hefur unnið alla fimm leiki sína í Síkinu í vetur, en liðið tapaði sínum fyrsta leik í tæpa tvo mánuði á Ásvöllum í leiknum á undan.

Stólarnir eru áfram í öðru sæti deildarinnar, fjórum stigum á eftir taplausu liði KR-inga.

Pétur Rúnar Birgisson átti fínan leik hjá Tindastól en hann var með 14 stig og 11 stoðsendingar. Myron Dempsey var stigahæstur Stólanna með 27 stig en þeir Darrel Keith Lewis (20 stig) og Svavar Atli Birgisson (16 stig, 12 fráköst og 6 stoðsendingar) voru einnig atkvæðamiklir í kvöld.

Tracy Smith Jr. var með 29 stig og 15 fráköst fyrir Skallagrím og Páll Axel Vilbergsson skoraði 19 stig.

Stólarnir voru aftur komnir í gírinn í kvöld og sigur liðsins var öruggir. Tindastóll var 29-21 yfir eftir fyrsta leikhlutann og með sex stiga forskot í hálfleik, 44-38.

Tindastólsmenn stungu síðan endalega af í þriðja leikhlutanum sem liðið vann 30-12. Við það brotnuðu Borgnesingar og Tindastólsliðið kom muninum upp í 36 stig fyrir leikslok.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×