Fótbolti

Nær Liverpool að endurtaka leikinn frá 2004?

Gerrard fagnar sigrinum eftirminnilega fyrir tíu árum síðan.
Gerrard fagnar sigrinum eftirminnilega fyrir tíu árum síðan. vísir/getty
Það er enn eitt risakvöldið framundan hjá Liverpool í Evrópukeppni enda allt undir er Basel kemur í heimsókn.

Ef Liverpool vinnur ekki leikinn þá kemst það ekki áfram í sextán liða úrslit keppninnar. Það verður því rafmagnað andrúmsloftið á Anfield í kvöld og mikil stemning.

Aðstæður minna um margt á árið 2004 er Liverpool þurfti að vinna Olympiakos með tveim mörkum til þess að komast áfram. Steven Gerrard skoraði þá markið sem kom liðinu áfram fjórum mínútum fyrir leikslok.

„Liverpool á mikla sögu í þessari keppni og leikurinn gegn Olympiakos er hluti af þeirri sögu. Við getum samt ekki bara treyst á Steven í þessum leik. Liðið þarf að stíga upp," sagði Brendan Rodgers, stjóri Liverpool.

„Allir leikmenn liðsins þurfa að axla ábyrgð í þessum leik en ekki setja ábyrgðin á Steven. Strákarnir geta haldið áfram að skrifa sögubækurnar í þessum leik."

Það væri mikið áfall fyrir Liverpool að komast ekki lengra í keppninni eftir fimm ára fjarveru. Sérstaklega í ljósi þess að riðillinn þykir ekki vera mjög sterkur.

„Við hugsum um jákvæð úrslit og lítum á þennan leik sem tækifæri frekar en einhverja hættu. Við mætum til leiks með sjálfstraustið í botni og ætlum að klára þetta dæmi."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×