Körfubolti

Umfjöllun og viðtöl: Njarðvík - Snæfell 98-83 | Njarðvíkingar stóðust áhlaup Snæfells

Árni Jóhannsson í Ljónagryfjunni skrifar
Njarðvíkingar höfðu sigur á Snæfellingum í kvöld í leik sm líklega var tæpari en þeir höfðu viljað. Heimamenn höfðu mest 21 stiga forskot en í fjórða leikhluta náðu Snæfellingar að minnka muninn niður í fimm stig en skorti tíma til að ná Njarðvíkingum.

Eftir magrar fyrstu mínútur í leiknum voru það gestirnir frá Stykkishólmi sem voru fljótari að taka við sér í Njarðvíkur og Snæfells. Bæði voru þeir betri í sóknarleiknum og voru að þvinga heimamenn í erfið skot sem gerði það að verkum að Snæfellingar gengu á lagið og náðu tíu stiga forskoti eftir fyrsta fjórðung þar sem Chris Woods var kominn með níu stig.

Þjálfarar Njarðvíkur messuðu hressilega yfir sínum mönnum milli leikhluta en það var vart við áhugaleysi af hálfu heimamanna á fyrstu tíu mínútum leiksins. Skellt var í pressuvörn og ákafinn í varnarleiknum skrúfaður upp úr öllu valdi. Það gerði það að verkum að heimamenn náðu 11-2 sprett í upphafi annars fjórðungs og komust mest níu stigum yfir þannig að 19 stiga sveifla heimamönnum í hag varð að veruleika. Snæfellingar náðu að rétta sinn hluta örlítið áður en gengið var til búningsklefa en Sveinn Davíðsson skoraði fimm stig á seinustu sekúndum hálfleiksins til að minnka muninn í fjögur stig úr níu.

Stigahæstir í hálfleik voru Logi Gunnarsson með 15 stig og Chris Woods með 11 stig fyrir Snæfellinga.

Njarðvíkingar komu síðan enn beittari jafnvel til leiks í þriðja leikhluta heldur en þeir gerðu í öðrum leikhluta. Þeir skelltu í lás í vörninni og pressuvörn þeirra setti Snæfellinga út af laginu í sóknarleiknum og gekk þeim lítið að koma knettinum í körfuna nánast allan leikhlutann. Jafnt og þétt juku Njarðvíkingar forskot sitt og komust mest 20 stigum yfir um miðjan þriðja fjórðung. Það var ekki bara að Snæfellingar þurftu að reyna erfið skot þá voru Njarðvíkingar duglegir að stela boltanum einnig og á tímabili enduðu fjórar sóknir í röð hjá Snæfell með því að Njarðvíkingar stálu boltanum. Staðan var 77-59 fyrir Njarðvík þegar þriðja leikhluta lauk.

Ef menn héldu að leiknum væri lokið eftir þrjá leikhluta, þá máttu þeir gjöra svo vel að endurskoða hug sinn. Snæfellingar léku sama leik og Njarðvíkingar í öðrum og þriðja leikhluta. Snæfellingar hertu varnarleik sinn og með því urðu sóknir þeirra árangursríkari. Jafnt og þétt nöguðu Snæfellingar niður forskotið en heimamenn reyndu að spila skynsamlega og taka langar sóknir en þeir náðu ekki að ljúka þeim með körfu og nýttu Snæfellingar sér þá staðreynd. Gestirnir komust næst sex stigum þegar um þrjár mínútur lifðu af leiknum en því miður þá var heppni þeirra lokið á þeim tímapunkti. Njarðvíkingar náðu að vera skynsamir ásamt því að finna körfuna. Það fór því þannig að leiknum lauk með 15 stiga sigri Njarðvíkinga en barátta Hólmara var hetjuleg þó hún hafi ekki dugað í þetta sinn.

Liðin hafa því sætaskipti í deildinni en þetta var fyrsti tapleikur Snæfellinga á tímabilinu en Njarðvíkingar hafa nú unnið tvo heimaleiki af þremur.

Ingi Þór Steinþórsson: Barátta liðsins það sem við tökum úr þessum leik

Hann var skiljanlega fúll þjálfari Snæfellinga eftir leikinn í kvöld og var spurður hvað hefði komið fyrir liðið hans í öðrum og þriðja leikhluta.

„Njarðvíkingar gerðu mjög vel í að henda okkur úr jafnvæginu sem við leitumst að spila í og við nýttum ekki það sem þeir voru að gefa okkur og leyfðum þeim að taka af okkur. Við duttum í það að spila einn á einn of mikið og við erum bara ekki þannig lið.“

„Við náðum þessu síðan niður í sex stig en liðið mitt hættir aldrei. Ef menn halda að leikurinn sé búinn þó að það sé 20 stiga munur þá eiga þeir að gera eitthvað annað en að spila körfubolta. Körfubolti er leikur áhlaupa og við náðum mjög góðu áhlaupi undir lokin en hlutirnir duttu síðan alls ekki með okkur þegar mest þurfti, þetta fjaraði út á mjög stuttum tíma í blálokin.“

Ingi var spurður hvort hann gæti tekið eitthvað jákvætt út úr leik eins og þessum. „Það er mjög jákvætt hvað liðið berst og að liðið ætli að ná betur samaan og verða betri og betri, ég tek það út úr þessum leik.“

Teitur Örlygsson: Mér fannst þetta vera sannfærandi

„Ég veit ekki með stress, það fór ansi mikil orka hjá þeim í að ná okkur og við voru klaufa í fjórða leikhluta og vorum að lenda í aðstöðum sem við nýttum okkur ekki þegar á þurfti að halda. Annars fannst mér þetta vera sannfærandi hjá okkur“, sagði aðstoðarþjálfari Njarðvíkur þegar hann var spurður hvort að hann hafi verið orðinn  stressaður í fjórða leikhluta.

„Varnarleikur okkar var mjög mjúkur í fyrsta leikhluta, þeir fengu að gera það sem þeir vildu. Síðan stigum við upp varnarleikinn hjá okkur og þá fannst mér leikurinn breytast og í þriðja leikhluta var varnarleikurinn alveg til fyrirmyndar. Við stálum boltanum og náðum að vera hraðir og það er eitthvað sem við viljum vera, við náum náttúrulega upp miklum hraða með því að spila góða vörn og ná fráköstu. Það var þannig í þriðja leikhluta, mjög há sóknar prósenta ásamt því að Dustin vaknaði til lífsins. Þar var grunnurinn lagður að sigrinum.“

Teitur var spurður hvað Njarðvíkingar þyrftu að gera til að ná heilum leik góðum.

„Meðan við löndum sigri er kannski hægt að sætta sig við að ná ekki góðum í 40 mínútur en góð lið gera það að spila heilan leik góðann. Við byrjum þennan leik illa en restin var ágæt hjá okkur, náðu til að mynda 19 stiga sveiflu í öðrum leikhluta til að ná forystunni en ef við förum að ná að binda saman 40 góðar mínútur í leik þá hljótum við að verða nokkuð góðir.“

Smelltu á Refresh eða ýttu á F5-takkann á lyklaborðinu til að endurhlaða lýsinguna.

4. leikhluti | 98-83: Leiknum er lokið. Njarðvíkingar stóðust áhlaupið og vinna með 15 stigum. Umfjöllun og viðtöl koma síðar í kvöld.

4. leikhluti | 95-83: Logi Gunnarsson setti niður körfu, þetta ætti að duga fyrir Njarðvík. 36 sek. eftir.

4. leikhluti | 93-83: Skynsamir heimamenn að nýta alla skotklukkuna og skora síðan ótrúlega körfu, Salisbery, munurinn er þá orðinn tíu stig. og mínúta eftir. Heimamenn ná boltanum aftur.

4. leikhluti | 90-83: Snæfellingar skoruðu og Salisbery komst á línuna og nýtti tvö víti. 1:47 eftir.

4. leikhluti | 88-81: Siggi Þorvalds var að fá tæknivillu fyrir meint flopp. Logi nýtti víti og Njarðvík heldur boltanum. 2:25 eftir.

4. leikhluti | 87-79: Snæfell náði muninum niður í sex stig en Njarðvík náði loksins að skora og halda gestunum átta stigum frá sér. Þetta verða spennandi þrjár mínútur hér í lokin.

4. leikhluti | 85-78: Pressuvörn gestanna hefur virkað mjög vel hérna í fjórða leikhluta og hafa þeir náð þvinga heimamenn í erfið skot sem rata ekki ofan í og svo stolið boltanum þess á milli. Það er gert dómarahlé til að fara yfir villur leikmanna en það er vafi hvort leikmaður sé kominn með fimm villur. 3:25 eftir.

4. leikhluti | 85-78: Eitthvað gengur heimamönnum illa að skora núna, Snæfellingar eru að nálgast þá óðfluga. 3:32 eftir.

4. leikhluti | 85-73: Leikhlé þegar 4:39 eru eftir af leiknum.

4. leikhluti | 85-73: Þriggja stiga sókn hjá Snæfell og munurinn er orðinn 11 stig, það er líf í þessum leik ennþá. 5:08 eftir.

4. leikhluti | 85-70: Snæfellingar náðu muninum niður í þrettán stig áður en heimamenn bættu við tveimur stigum. Njarðvíkingar eru skynsamir, ef þeir ná sóknarfrákasti þá spila þeir boltanum út og lengja sínar sóknir.

4. leikhluti | 83-67: Snæfellingar hafa skorað 8 stig á móti sex Njarðvíkinga í upphafi lokafjórðungsins, það er líklega ekki nógu hratt skorið á forskotið. 6:35 eftir.

4. leikhluti | 79-63: Snæfellingar áttu fyrstu fjögur stig fjórðungsins áður en Salisbery skoraði. Aukin harka að færast í leikinn en það er bara gaman. 8:26 eftir.

4. leikhluti | 77-59: Seinasti fjórðungurinn er hafinn, er endurkoma á leiðinni hjá Snæfell? 9:55 eftir.

3. leikhluti | 77-59: Þriðja leikhluta er lokið Snæfellingar náðu að bæta við einu stigi af vítalínunni úr fjórum tilraunum, það er ansi dýrt að nýta vítin ekki betur þegar reynt er að vinna upp mikinn mun. Hinsvegar var þetta frábær fjórðungur fyrir heimamenn sem leiða með 18 stigum.

3. leikhluti | 77-58: Snæfellingar reyna pressuvörn núna en Njarðvíkingar eiga ekki í miklum vandræðum með að leysa hana ná að stela boltanum einnig. 1:21 eftir.

3. leikhluti | 75-56: Jæja, Snæfellingar virðast loksins byrjaðir í seinni hálfleik. Það er verra fyrir þá ef liðin skiptast á körfum eins og hefur gerst undanfarin andartök. 3:30 eftir.

3. leikhluti | 69-49: 20 stiga munur fyrir Njarðvík, ég er löngu búinn að tapa tölunni á því hversu oft boltanum hefur verið stolið af Snæfelli. Rosalegar upphafsmínútur á seinni hálfleik frá Njarðvík. 4:50 eftir.

3. leikhluti | 65-49: Njarðvíkingar fara hamförum í varnarleiknum, fimm stig í röð frá Salisbery eftir að Snæfell náði að setja niður körfu. 6 mín eftir.

3. leikhluti | 60-47: Aftur stálu heimamenn boltanum, strax eftir leikhléið og bættu við stigi. Þetta var líklega ekki það sem Ingi Þór pantaði. 6:53 eftir.

3. leikhluti | 59-47: Njarðvíkingar stálu boltanum og bættu við tveimur stigum og gestirnir taka leikhlé þegar 7:18 er eftir. Snæfellingar ekki mættir til leiks hérna eftir hálfleik.

3. leikhluti | 57-47: Það virðist setja gestina út af laginu að heimamenn pressi þá. Njarðvíkingar eru komnir 10 stigum yfir þegar 7:40 er eftir.

3. leikhluti | 53-47: Bæði lið skora úr fyrstu sókn sinni í seinni hálfleik, Njarðvíkingar virðast ætla að halda áfram að pressa á boltamanninn allavega. 8:36 eftir.

3. leikhluti | 49-45: Seinni hálfleikur er hafinn og það eru heimamenn sem byrja með boltann. 9:59 eftir.

2. leikhluti | 49-45: Snæfellingar náðu heldur betur að laga stöðuna fyrir hálfleik. Sveinn Davíðsson skoraði þriggja stiga körfu og stal síðan boltanum og náði að leggja boltann í körfuna. Munurinn er því fjögur stig í staðinn fyrir níu. Sveiflan er samt 14 stig heimamönnum í vil.

2. leikhluti | 49-40: Mínúta eftir og heimamenn ná að bæta við í forskotið. Varnarleikurinn er mjög góður hjá Njarðvík.

2. leikhluti | 47-40: Snæfell gerði vel strax eftir leikhlé og setti niður þriggja stiga körfu en Mirko svaraði um hæl með tveimur vítum. 1:30 eftir.

2. leikhluti | 45-37: Gestirnir þurfa að taka leikhlé eftir að Njarðvíkingar negla niður þrist. Þetta er 18 stiga sveifla fyrir heimamenn hérna í öðrum leikhluta. Mikið meiri áhugi fyrir þessu hjá Njarðvík heldur en var í fyrsta fjórðung. 2:07 til hálfleiks.

2. leikhluti | 40-35: Heimamenn komnir fimm stigum yfir. Logi Gunnarsson fékk þrjú víti og skoraði úr fyrstu tveimur. Hann klikkaði á síðasta vítinu en Hjörtur Einarsson náði frákastinu og setti boltann ofan í. Fjögurra stiga sókn. 3:40 eftir.

2. leikhluti | 36-35: Heimamenn komust yfir og bættu síðan við körfu áður en Hólmarar náðu að svara. Ansi góður viðsnúningur hjá heimamönnum í öðrum fjórðung. 3:55 eftir.

2. leikhluti | 32-33: Nú skiptast liðin á körfum og enn er einst stiga munur. 5:15 eftir.

2. leikhluti | 27-28: Heimamenn eru búnir að saxa forskotið niður í eitt stig, þökk sé góðum varnarleik. 6:54 eftir. 11-2 sprettur.

2. leikhluti | 21-26: Ákafinn í varnarleik heimamanna er orðinn nokkuð meiri heldur en í fyrsta leikhluta, gestirnir hafa ekki náð nema einu skoti úr fyrstu fjórum sóknum sínum. Heimamenn ná þó ekki að nýta það í sóknarleiknum almennilega. 8:23 eftir.

2. leikhluti | 19-26: Annar leikhluti hafinn og heimamenn opna hann með þriggja stiga körfu eftir að hafa stolið boltanum af Snæfell. 9:30 eftir.

1. leikhluti | 16-26: Fyrsta leikhluta er lokið, heimamönnum hefur gengið illa í sóknarleik sínum og Snæfellingarnir gengu á lagið og með fínum leik náðu sér í 10 stiga forskot. Chris Woods er kominn með 9 stig á með Mirko Virijevic er með fimm stig fyrir heimamenn.

1. leikhluti | 14-19: Það virtist vera einhver vandræðagangur í sókn hjá Njarðvík en Ágúst Orrason smellti niður þrist þegar lítið var eftir af skotklukkunni. 1:56 eftir.

1. leikhluti | 11-19: Það gengur betur hjá gestunum að finna réttu skotin þessa stundina og hafa þeir náð átta stigum í forskot og heimamenn taka leikhlé þegar 2:15 eru eftir. Chris Woods er stigahæstur gestanna með sjö stig.

1. leikhluti | 9-11: Það er fínn hraði í þessum leik þó hittnin sékannski ekki til staðar hjá liðunum fyrst um sinn. Snæfellingar hafa náð forskotinu. 4:10 eftir.

1. leikhluti | 5-4: Fjórar mínútur liðnar og samtals fjórar körfur komnar utan af velli. Heimamenn hafa sett eitt víti að auki og hafa eitt stig í forskot. 6:00 eftir.

1. leikhluti | 2-0: Bölvaður kuldi í mönnum hérna fyrstu mínútur leiksins, liðin klikka á skotum og missa boltann. Heimamenn þó fyrstir á blað. 8:05 eftir.

1. leikhluti | 0-0: Fyrsti fjórðungur er hafinn og það eru heimamenn sem ná boltanum. 9:59 eftir.

Fyrir leik: Rúmar fimm mínútur í leik og bæði lið hlaupa seinustu hringina í lay-up röðunum. Það er nánast allt orðið klárt fyrir leikinn og nú þurfum við bara að bíða eftir því að bolta verði kastað í loftið.

Fyrir leik: Síðasti leikur Snæfellinga var gegn KR í Hólminum og enduðu leikar 91-99 fyrir gestunum en í þeim leik skoraði Chris Woods 26 stig ásamt því að þrifa glerið ansi vel með því að hirða 16 fráköst. Njarðvíkingar gerðu hinsvegar góða ferð til Grindavíkur og unnu heimamenn með 11 stigum 74-85. Þar var Dusti Salisbery aðalmaðurinn en hann skoraði 30 stig og hrifsaði til sín 15 fráköst. Semsagt tvær tröllatvennur frá erlendu leikmönnum liðanna og verður gaman að fylgjast með viðureign þeirra í kvöld.

Fyrir leik: Í fyrirsögninni hér að ofan er varpað fram spurningu um hvort Snæfellingar vinni einn útisigurinn enn, þeir hafa verið betri nefnilega þegar þeir hafa þurft að leggja land undir fót það sem af er vetri heldur en þegar þeir eiga leiki í Stykkishólmi. Þeir hafa spilað fjóra leiki heima og bara unnið einn af þeim leikjum en báðir útileikir liðisins hafa endað með sigri.

Fyrir leik: Liðin sem eigast við í kvöld sitja í sjötta og sjöunda sæti deildarinnar og eru þau jöfn að stigum. Hólmarar í Snæfell sitja þó ofar í töflunni. Bæði lið eru með sex stig eftir sex leiki.

Fyrir leik: Sælir lesendur Vísis og verið velkomnir á Boltavaktina, við ætlum að fylgjast með leik Njarðvíkinga og Snæfells sem fer fram í Ljónagryfjunni í Njarðvík.



https://www.visir.is/i-beinni--njardvik---snaefell---enn-einn-utisigur-snaefellinga/article/2014141129922




Fleiri fréttir

Sjá meira


×