Körfubolti

Stólarnir unnu Keflvíkinga með 23 stigum á Króknum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Darrel Keith Lewis.
Darrel Keith Lewis. Vísir/Valli
Tindastóll komst upp að hlið KR-inga á toppi Dominos-deildar karla í körfubolta í kvöld þegar liðið vann 23 stiga sigur á Keflavík á Króknum í kvöld, 97-74.

Tindastólsliðið, sem er nýliði í deildinni, hefur unnið fjóra leiki í röð og alls 6 af sjö deildarleikjum tímabilsins til þessa. Darrel Keith Lewis heldur áfram frábærri spilamennsku sinni og fór illa með sína gömlu félaga.

Keflvíkingar mættu norður án Damon Johnson, Gunnars Einarssonar, Arnars Freys Jónssonar og þjálfarans Helga Jónasar Guðfinnssonar en það voru aðeins tíu Keflvíkingar á skýrslu í leiknum.

Stólarnir unnu fyrsta leikhlutann 27-15 en Keflavíkurliðið kom muninum niður í átta stig hálfleik, 44-36. Stólarnir unnu tvo síðustu leikhlutana og á endanum leikinn með 23 stiga mun.

Tindastólsmaðurinn Darrel Keith Lewis, sem spilaði með Keflavík í fyrra, fór á kostum gegn sínum gömlu félögum og var kominn með sextán stig í hálfleik. Hann endaði leikinn með 26 stig.

Hinn stórefnilegi Pétur Rúnar Birgisson var með 18 stig og 8 fráköst fyrir Tindastólsliðið og Myron Dempsey bætti við 20 stigum og 15 fráköstum.

Guðmundur Jónsson var atkvæðamestur hjá Keflavík með 23 stig en William Thomas Graves VI skoraði 18 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×