Körfubolti

Þórsarar hoppuðu upp um fimm sæti í töflunni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nemanja Sovic og Vincent Sanford voru atkvæðamestir í Þórsliðinu í kvöld.
Nemanja Sovic og Vincent Sanford voru atkvæðamestir í Þórsliðinu í kvöld. Vísir/Vilhelm
Þórsarar úr Þorlákshöfn eru komnir alla leið upp í 3. sæti Dominos-deildar karla í körfubolta eftir tíu stiga sigur á Skallagrími, 100-90, í 7. umferð deildarinnar í Icelandic Glacial höllinni í Þorlákshöfn í kvöld.

Þórsliðið var í 8. sæti fyrir leikinn en hoppaði upp um fimm sæti þar sem liðið stendur svo vel að vígi í innbyrðisviðureignum meðal þeirra fimm liða sem eru jöfn í þriðja til sjöunda sæti með átta stig (4 sigra í 7 leikjum).

Nemanja Sovic skoraði 26 stig fyrir Þór í kvöld þar af 17 þeirra í fyrsta leikhlutanum sem Þórsliðið vann 33-21. Þór var síðan 54-41 yfir í hálfleik þar sem Nemanja var kominn með 21 stig.

Þórsarar hafa nú unnið tvo leiki í röð í Dominos-deildinni en þeir sóttu tvö stig á Ásvelli í umferðinni á undan. Skallagrímsmenn hafa aftur á móti tapað öllum þremur útileikjum sínum og sex af sjö deildarleikjum vetrarins.



Þór Þ.-Skallagrímur 100-90 (33-21, 21-20, 24-22, 22-27)

Þór Þ.: Nemanja Sovic 26/9 fráköst, Vincent Sanford 25/8 fráköst/5 stoðsendingar, Tómas Heiðar Tómasson 16/5 stoðsendingar, Baldur Þór Ragnarsson 11/7 stoðsendingar, Grétar Ingi Erlendsson 10/6 fráköst, Emil Karel Einarsson 4, Þorsteinn Már Ragnarsson 4/4 fráköst, Oddur Ólafsson 2, Halldór Garðar Hermannsson 2.

Skallagrímur: Tracy Smith Jr. 34/13 fráköst, Sigtryggur Arnar Björnsson 25, Daði Berg Grétarsson 10/4 fráköst, Einar Ólafsson 9, Atli Aðalsteinsson 5, Davíð Ásgeirsson 4, Kristófer Gíslason 3/4 fráköst.

Dómarar: Jón Guðmundsson, Ísak Ernir Kristinsson, Jóhannes Páll Friðriksson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×