Körfubolti

Sigurganga Snæfells heldur áfram

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hildur Sigurðardóttir skilaði sínu og gott betur í dag.
Hildur Sigurðardóttir skilaði sínu og gott betur í dag. vísir/stefán
Íslandsmeistarar Snæfells tylltu sér á topp Domino's deildar kvenna með níu stiga sigri á Val, 79-88, í Vodafone-höllinni í dag.

Valskonur leiddu með þremur stigum eftir fyrsta leikhluta, 25-22, og þær voru enn yfir þegar flautað var til hálfleiks, 41-39.

Gestirnir frá Stykkishólmi voru sterkir í þriðja leikhluta sem vannst með sjö stigum, 16-23.

Íslandsmeistararnir reyndust svo sterkari á lokasprettinum og unnu sinn níunda sigur í tíu deildarleikjum á tímabilinu.

Snæfellskonur voru ískaldar fyrir utan þriggja stiga línuna (15% skotnýting), en það kom ekki að sök því Íslandsmeistarnir tóku fleiri fráköst og töpuðu færri boltum.

Kristen McCarthy fór mikinn í liði Snæfells, skoraði 31 stig og tók tíu fráköst. Gunnhildur Gunnarsdóttir skoraði 19 stig og þá var fyrirliðinn, Hildur Sigurðardóttir, drjúg með 13 stig, 13 fráköst og sjö stoðsendingar.

Joanna Harden var stigahæst í liði Vals með 30 stig, en Guðbjörg Sverrisdóttir kom næst með 15 stig og 11 fráköst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×