Fótbolti

Vongóður um að Hannes spili í úrvalsdeild að ári

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Hannes Þór Halldórsson.
Hannes Þór Halldórsson. Vísir/Anton
Þó nokkur áhugi er á landsliðsmarkverðinum Hannesi Þór Halldórssyni, leikmanni Sandnes Ulf í Noregi, að sögn umboðsmanns hans.

Hannes féll með liði sínu, Sandnes Ulf, um liðna helgi en Hafþór Hafliðason hjá umboðsmannaskrifstofunni Sportic segist vongóður um að Hannes fái tækifæri til að spila í norsku úrvalsdeildinni að ári.

„Það er stefnan og við metum það svo að það sé áhugi fyrir hendi frá öðrum liðum. Við eigum þó eftir að sjá hvernig þau mál þróast á næstunni,“ sagði Hafþór.

„Hann stóð sig mjög vel hjá Sandnes Ulf sem og vitaskuld íslenska landsliðinu. Ég held að hann hafi komið mörgum á óvart í Noregi því hann hefur verið einn allra besti markvörður úrvalsdeildarinnar á tímabilinu.“

Hannes á eitt ár eftir af samningi sínum við Sandnes Ulf. Hafþór segir að það ríki þó fullur skilningur á því að Hannes vilji spila í sterkri deild til að halda sæti sínu í íslenska landsliðinu.

„Við höfum trú á því að það verði hægt að finna lausn sem muni koma öllum aðila til góða en samstarf okkar við Sandnes Ulf hefur verið mjög gott.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×