Enski boltinn

Scholes um stöðu Liverpool: Gerrard er ekki ánægður

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Steven Gerrard kemur hér inn fyrir Lucas Leiva.
Steven Gerrard kemur hér inn fyrir Lucas Leiva. Vísir/Getty
Paul Scholes, fyrrum leikmaður Manchester United, var einn af þeim sem gagnrýndi liðsval Brendan Rodgers, knattspyrnustjóra Liverpool, í Meistaradeildarleiknum á móti Real Madrid í gær.

Paul Scholes starfar í dag sem knattspyrnuspekingur á ITV-sjónvarpstöðinni og hann telur að fyrirliðin Steven Gerrard sé örugglega ekki ánægður með þá ákvörðun Brendan Rodgers að stilla upp hálfgerðu varaliði.

Steven Gerrard, Jordan Henderson, Raheem Sterling, Mario Balotelli og Coutinho byrjuðu allir á bekknum í leiknum sem Liverpool slapp með 1-0 tap þrátt fyrir stórsókn Real Madrid allan tímann.

„Hann hætti í enska landsliðinu til þess að geta spilað leiki eins og þennan. Ég er því viss um að hann er ekki ánægður í kvöld," sagði Paul Scholes.

Steven Gerrard er orðinn 34 ára gamall en Liverpool mætir síðan toppliði Chelsea í ensku úrvalsdeildinni á laugardaginn og Brendan Rodgers var örugglega með þann leik í huga.

„Ég tel að Steven Gerrard hefði vel getað spilað þennan leik og svo aftur á laugardaginn. Það er bara þriðjudagskvöld. Hann fær tvo heila daga í hvíld og svo getur hann æft á föstudaginn og spilað á laugardaginn. Svo bíður hans tveggja vikna frí," sagði Paul Scholes en eftir leikinn á laugardaginn tekur við landsleikjahlé.

Paul Scholes nefndi það einnig að Brendan Rodgers hafi einungis farið inn í þennan leik á Santiago Bernabeu í gær til þess að forðast stórtap.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×