Sport

Hinn 49 ára gamli Hopkins laminn í klessu í nótt | Myndband

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vísir/Getty
Bernard Hopkins (49 ára að verða 50 ára) er elsti handhafi heimsmeistaratitils í boxi en í nótt missti hann tvo heimsmeistaratitla í léttþungavigt til Sergej Kovalev í beinni á Stöð 2 Sport.

Sergej Kovalev er átján árum yngri en Hopkins og vann einróma sigur en gamli karlinn hélt þó út í tólf lotur. Kovalev lamdi Hopkins niður í fyrstu lotu og fór illa með andstæðinginn sinn sérstaklega í tólftu og síðustu lotunni sem má sjá hér fyrir neðan.

Kovalev hefur ekki tapað í hringnum og 23 af 26 bardögum hans hafa endað með rothöggi. Eftir sigurinn í nótt er hann nú handhafi þriggja heimsmeistaratitla í léttþungavigt. Rússinn tók IBF og WBA titlana af Hopkins og var handhafi WBO-titilsins.

„Ég vildi sýna aðdáendum mínum að ég kynni að voxa og ég gerði það," sagði Sergej Kovalev eftir bardagann. „Ég reyndi að rota hann í tólftu lotunni en hann varðist frábærlega. Hann er besti boxarinn í mínum flokki," bætti Kovalev við. Kovalev náði 38 höggum á Hopkins í lokalotunni sem má eins og áður sagði sjá hér fyrir neðan.

Bernard Hopkins, sem er algjör goðsögn í boxheiminum, er í mögnuðu formi þrátt fyrir að vera að detta í fimmtugt strax eftir áramótin. Hopkins átti þó engin svör í nótt og þetta er líklega síðasti bardaginn hans á ferlinum.

Hopkins var dæmdur í fangelsi 17 ára gamall og lærði að boxa í steinunum. Hann kom út fimm árum síðar og fór fljótlega að berjast í hringnum. Árið 2009 varð hann fyrsti boxarinn til að vinna beltin hjá öllum stóru samböndunum, IBF, WBA, WBO og WBC. Hopkins bætti tvisvar sinnum metið yfir elsta heimsmeistaranna, fyrst þegar hann var 46 ára árið 2011 og svo aftur tveimur árum síðar.

Tólfta og síðasta lotan í bardaga Kovalev og Hopkins í nótt. (Henry Birgir Gunnarsson lýsir)
Box



Fleiri fréttir

Sjá meira


×