Formúla 1

Læknir segir Schumacher á bata­vegi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/AFP

Læknir sem annaðist ökuþórinn Michael Schumacher í hálft ár segir að hann hafi tekið einhverjum framförum frá skíðaslysinu í desember síðastliðnum.



Schumacher hlaut alvarlega höfuðáverka þegar hann féll á skíðum í frönsku ölpunum og lenti með höfuðið á grjóti. Honum var lengi haldið sofandi á meðan læknar börðust við áverka á heila Schumachers.



Schumacher er ekki lengur í dái og hlýtur nú umönnun á heimili sínu í bænum Gland í Sviss. Jean-Francois Payen, læknir sem annaðist hann á sjúkrahúsinu í Grenoble, vitjar hans reglulega þar.



Payen var í viðtali hjá frönsku útvarpsstöðinni RTL og Le Parisien dagblaðinu í dag þar sem hann segist hafa orðið vitni að því að Schumacher hafi tekið framförum á þessum tíma. Hann sagði á sínum tíma að Schumacher þyrfti langan tíma til að jafna sig, allt frá einu ári til þriggja.



„Ég hef tekið eftir einhverjum framförum en ég myndi segja að hann þurfi lengri tíma. Það þarf að sýna honum þolinmæði,“ sagði hann.



„Við vitum að sumir geta þurft 3-4 ár í endurhæfingu. Það fer allt eftir alvarleika meiðslanna og aldri og líkamlegu ástandi viðkomandi.“


Tengdar fréttir

Endurhæfing Schumacher færð á heimili hans

Talskona Michael Schumacher staðfesti í dag að Schumacher hefði verið fluttur af spítalanum í Lausanne á heimili sitt þar sem endurhæfingin mun halda áfram.

Myndavélin á hjálmi Schumacher gerði mestan skaða

Nýjustu fréttirnar af formúlugoðsögninni Michael Schumacher eru þær að hinn 45 ára gamli Þjóðverji sé enn að vakna úr dáinu því að það ferli er allt mjög hægt. Þetta er haft eftir fimmtán ára syni hans Mick. Það er einnig komið í ljós að það var myndavélin á hjálmi hans sem orsakaði mesta skaðann.

Enn reynir á Schumacher-fjölskylduna

Á meðan formúlugoðsögnin Michael Schumacher er í endurhæfingu eftir höfuðhöggið sem hann varð fyrir í frönsku Ölpunum í lok síðasta árs þá stendur yngri bróðir hans í erfiðum skilnaði. Það reynir því mikið á Schumacher-fjölskylduna þessi misserin.

Schumacher bregst við rödd konu sinnar

Michael Schumacher er sagður bregðast við þegar hann heyrir rödd eiginkonu sinnar og að hann geti andað óstuddur í ákveðinn tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×