Viðskipti innlent

Lögmenn Kaupþingstoppa fá nær ársfrest til að skila greinargerðum

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Sigurður Einarsson, Hreiðar Már Sigurðsson og Magnús Guðmundsson.
Sigurður Einarsson, Hreiðar Már Sigurðsson og Magnús Guðmundsson. Vísir

Verjendur Hreiðars Más Sigurðssonar, fyrrverandi forstjóra Kaupþings, Sigurðar Einarssonar, fyrrverandi stjórnarformanns bankans, og Magnúsar Guðmundssonar, fyrrverandi bankastjóra Kaupþings í Lúxemborg, hafa fram til næsta hausts til að skila greinargerð í máli sem sérstakur saksóknari hefur höfðað á hendur þeim.



Þetta kom fram í fyrirtöku á málinu í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag en þar var tekin afstaða til kröfu verjenda í málinu um að frestur yrði gefinn til að skila greinargerðinni. Farið var fram á frestinn vegna anna í tengslum við önnur mál þar sem Kaupþingsmennirnir fyrrverandi eru sóttir til saka fyrir meint brot sín í aðdraganda hrunsins haustið 2008. Á það féllst dómarinn.



Málið snýr um meint umboðssvik mannanna þriggja vegna lánveitinga út úr Kaupþingsbanka til félaga á Bresku jómfrúareyjunum.



Ekki hefur verið ákveðin dagsetning aðalmeðferðar í málinu en ljóst er að hún fer ekki fram fyrr en að þessum fresti liðnum. Lögmenn þremenninganna hafa til 1. október næstkomandi til að skila greinargerðum í málinu. 


Tengdar fréttir

Sakaðir um umboðssvik vegna lána til vildarvina

Ákæra á hendur fyrrverandi stjórnendum Kaupþings, þeim Hreiðari Má Sigurðssyni, Sigurði Einarssyni og Magnúsi Guðmundssyni fyrir umboðssvik, verður þingfest í dag í Héraðsdómi Reykjavíkur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×