Erlent

Örmagnaðist á hafi úti í uppblásnum bolta

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Bandarískum maraþonhlaupara sem hafði það að markmiði að ferðast um 1.660 kílómetra vegalengd í uppblásnum bolta var í gærmorgun bjargað eftir að hafa örmagnast á hafi úti. Maraþonhlauparinn Reza Baluchi játaði sig sigraðan þegar hann var um 70 mílum, eða 112 kílómetrum frá St. Augustine í Flórída.

Baluchi hugðist ferðast á milli Flórída og Bermúda í uppblásnum bolta með það að markmiði að safna fjár til barna í neyð og til að hvetja þá sem misst hafa von um betri framtíð.  Að sögn bandarísku strandgæslunnar er þetta í fyrsta sinn sem maður leggur í slíka för.

Í yfirlýsingu frá bandarísku strandgæslunni segir að Baluchi hafi verið hvattur til að hætta för sinni síðastliðinn miðvikudag þegar hann fyrst óskaði aðstoðar. Hann hafi þá verið ringlaður og óskað eftir leiðbeiningum til Bermúda. Hann hafi þó ákveðið að hunsa ráðleggingar strandgæslunnar. Hann var svo sóttur af strandgæslunni á laugardagsmorgun, óslasaður.

Boltann hannaði Baluchi sjálfur úr plasti en á vefsíðu hans segir að hitastigið inni í boltanum geti farið upp í tæpar 50 gráður. Hann veiddi sér daglega til matar á milli þess sem hann borðaði próteinstangir. Þá var hann með vatnsflöskur, GPS-tæki og gervihnattasíma með sér í boltanum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×