Íslenski boltinn

Emil notar KSÍ til að losna frá KR

Framherjinn Emil Atlason vill losna frá KR
Framherjinn Emil Atlason vill losna frá KR Vísir/Arnþór
Framherjinn Emil Atlason hefur leitað til samninganefndar KSÍ til að losna undan samningi sínum við KR. Þetta staðfestir Kristinn Kjærnsted, formaður knattspyrnudeildar KR, en vill að öðru leyti ekki tjá sig um málið.

Forsaga málsins er sú að Emil skrifaði undir tveggja ára samning við KR í febrúar 2012 sem renna átti út nú í október. Sá samningur var með möguleika á einhliða eins árs framlengingu af hálfu KR.

Félagið nýtti sér réttinn til framlengingar í apríl á síðasta ári og er Emil því samningsbundinn Vesturbæjarliðinu fram í október á næsta ári.

Eftir því sem næst verður komist telja Emil og hans fólk að framlengingin standist ekki lög og vilja rifta henni sem myndi gera það að verkum að Emil væri laus allra mála hjá félaginu nú í október.

Samninganefnd KSÍ hefur fengið greinargerðir frá báðum aðilum en ekki niðurstaða liggur ekki fyrir.

Emil spilaði fjórtán leiki með KR í Pepsideildinni í sumar og skoraði tvö mörk. Hann hefur hins vegar verið sjóðandi heitur með íslenska U-21 árs landsliðinu, skoraði átta mörk í jafnmörgum leikjum í undankeppni EM 2015 og verður væntanlega í sviðsljósinu þegar Ísland mætir Danmörku í fyrri umspilsleik um sæti á EM á næsta ári í Álaborg á föstudaginn. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×