Íslenski boltinn

Doumbia fékk fjögurra leikja bann

Kassim Doumbia var verulega ósáttur við Kristinn Jakobsson dómara eftir leik FH og Stjörnunnar á laugardag.
Kassim Doumbia var verulega ósáttur við Kristinn Jakobsson dómara eftir leik FH og Stjörnunnar á laugardag. Vísir/Andri Marínó
Kassim Doumbia, varnarmaður FH, hefur verið dæmdur í fjögurra leikja bann af Aganefnd KSÍ, vegna ofsafenginnar framkomu sinnar eftir leik FH og Stjörnunnar á laugardaginn.

Þrjá menn þurfti til að forða fjúkandi reiðum Doumbia frá því að ráðast á Kristinn Jakobsson dómara leiksins en Kristinn dæmdi vítaspyrnu á Doumbia í uppbótartíma - vítaspyrnu sem tryggði Stjörnunni sigur í leiknum og Íslandsmeistaratitilinn. 

Þetta er í annað sinn sem Doumbia fær langt bann síðan hann gekk í raðir FH-inga fyrir tímabilið en hann var á miðju sumri dæmdur í þriggja leikja bann fyrir að taka spjald af dómara. 

Eyjamaðurinn Ian Jeffs var dæmdur í tveggja leikja bann og Blikarnir Arnór Sveinn Aðalsteinsson og Elfar Árni Aðalsteinsson, FH-ingurinn Hólmar Örn Rúnarsson, Framararnir Arnþór Ari Atlason, Jóhannes Karl Guðjónsson og Ósvald Jarl Traustason, Fylkismaðurinn Tómas Þorsteinsson, KR-ingurinn Gonzalo Balbi, Stjörnumaðurinn Veigar Páll Gunnarsson og Valsmennirnir Haukur Páll Sigurðsson og Kristinn Freyr Sigurðsson voru allir dæmdir í eins leiks bann.


Tengdar fréttir

Kassim Doumbia þarf að bíða eftir niðurstöðu til morguns

Aga- og úrskurðarnefnd Knattspyrnusambands Íslands fundar ekki í dag, þriðjudag, eins og vaninn er á sjálfu tímabilinu en margir bíða eftir því hvernig tekið verður á þeim málum sem komu upp í tengslum við úrslitaleik FH og Stjörnunnar í lokaumferð Pepsi-deildar karla.

Kristinn Jakobsson: Menn þurfa að lifa með þessu

Eitt af síðustu verkum Kristins Jakobssonar sem knattspyrnudómara var að dæma vítaspyrnuna sem tryggði Stjörnunni sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil í sögunni. Um áramótin leggur hann flautuna á hilluna fyrir fullt og allt og segist hann sáttur við ákvörðun sína




Fleiri fréttir

Sjá meira


×