Íslenski boltinn

Ásgeir Börkur: Nóg komið af útlendingum hjá Fylki

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ásgeir Börkur er þekktur fyrir að gefa 110 prósent í hverjum einasta leik.
Ásgeir Börkur er þekktur fyrir að gefa 110 prósent í hverjum einasta leik. vísir/valli
Ásgeir Börkur Ásgeirsson, miðjumaðurinn klettharði sem leikur nú með GAIS í B-deildinni í Svíþjóð, er í stóru viðtali á knattspyrnuvefsíðunni 433.is þar sem hann ræðir veru sína í Svíþjóð og margt fleira.

Hann ræðir meðal annnars um sitt uppeldisfélag Fylki sem var nálægt því að stela Evrópusæti í lokaumferð Pepsi-deildarinnar á kostnað Víkings. Árbæjarliðið var í fallbaráttu framan af móti en blandaði sér svo í Evrópubaráttuna undir lok deildarinnar.

„Þetta byrjaði ekki vel en þegar Alli [Albert Brynjar Ingason] kemur aftur fer þetta að rúlla og algjörlega lífsnauðsynlegt fyrir klúbbinn að fá Alla til baka enda einn af bestu framherjum deildarinnar á góðum degi,“ segir Ásgeir Börkur.

Hann hefur sterkar skoðanir á leikmannamálum félagsins og finnst nóg komið af útlendingum sem koma í Árbæinn og skilja lítið eftir sig. Tveir af þeim þremur erlendu leikmönnum sem Fylkir fékk fyrir tímabilið í sumar voru sendir heim áður en mótið kláraðist.

„Mér finnst í fyrsta lagi þessi útlendinga kaupstefna Fylkis fullreynd. Þessi klúbbur hefur allt til alls, við erum með frábæra stúku, frábærar aðstæður og frábært fólk á bak við klúbbinn. Fylkir á ekki að þurfa fara eitthvað út í heim og ná sér í rándýra útlendinga sem þiggja bara pening frá klúbbnum og gefa nákvæmlega ekkert tilbaka,“ segir hann og bætir við:

„Það er allt til alls í Árbænum, fullt af ungum og efnilegum leikmönnum í Fylki, gefa þeim tækifæri með meistaraflokki og veita þeim aðhald.“

„Fylkir hefur að mörgu leyti gert þetta vel enda var byrjunarliðið í sumar oft á tíðum eingöngu skipað uppöldum leikmönnum. Það þarf samt meira en að setja þá í treyju og segja þeim að fara út á völl og sparka í átt að sundlauginni,“ segir Ásgeir Börkur Ásgeirsson.

Allt viðtalið má lesa hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×