Innlent

Samskipti ráðherra og lögreglustjóra tekin til formlegrar rannsóknar

Bjarki Ármannsson skrifar
Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis.
Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis. Vísir/pjetur
Umboðsmaður Alþingis mun taka samskipti Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra og Stefán Eiríkssonar, fráfarandi lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins, til formlegrar athugunar. Tilkynnt var um þetta í dag samhliða því sem þriðja bréf Umboðsmanns til ráðherra varðandi þessi samskipti barst.

Það er ekki nýtt að Umboðsmaður Alþingis hefji frumkvæðisathugun á starfi ráðherra eða starfsemi framkvæmdavaldsins. Samkvæmt heimildum fréttastofu er það aftur á móti afar fátítt, ef ekki einsdæmi, að í slíkum aðstæðum vísi Umboðsmaður í annan málslið 12. greinar laga um Umboðsmann Alþingis, líkt og gert er í bréfinu sem birtist í dag.

Í þeim lögum segir að ef Umboðsmaður Alþingis verði áskynja stórvægilegra mistaka eða afbrota stjórnvalds getur hann gefið Alþingi eða hlutaðeigandi ráðherra sérstaka skýrslu um málið.

Sem kunnugt er óskaði Umboðsmaður upphaflega eftir upplýsingum frá ráðherra um samskipti hennar við Stefán á meðan embætti hans hafði til rannsóknar meintan leka á upplýsingum um hælisleitandann Tony Omos úr ráðuneytinu.

Ósk Umboðsmanns kom í kjölfar þess að fullyrt var í frétt DV að Stefán hefði sagt upp störfum vegna afskipta ráðherra af rannsókninni. Hanna Birna hefur alla tíð haldið því fram að hún hafi engum þrýstingi beitt lögreglustjóra.


Tengdar fréttir

Stefán segir aðstoðarmenn Hönnu Birnu hafa beðið sig um að neita frétt DV

Stefán Eiríksson, fráfarandi lögreglustjóri, tjáði Umboðsmanni Alþingis að aðstoðarmenn Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra, þau Gísli Freyr Valdórsson og Þórey Vilhelmsdóttir, hafi haft samband við sig og beðið hann um að neita fréttaflutningi DV um samskipti sín við ráðherra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×