Innlent

Tók skýrt fram að hann hefði ekki hætt vegna ráðherra

Bjarki Ármannsson skrifar
Stefán Eiríksson, fráfarandi lögreglustjóri.
Stefán Eiríksson, fráfarandi lögreglustjóri. Vísir/Valli
Stefán Eiríksson, fráfarandi lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, tók það skýrt fram í fyrsta viðtali sínu við Umboðsmann Alþingis að hann hefði ekki sagt upp störfum sínum vegna afskipta Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra af rannsókn lögreglu.

Þetta segir í þriðja bréfi Umboðsmanns til ráðherra sem birt var í dag. Umboðsmaður óskaði eftir upplýsingum frá ráðherra um fundi hennar með lögreglustjóra á meðan rannsókn stóð yfir á meintum upplýsingaleka úr ráðuneyti hennar. Óskað var eftir upplýsingum um þessi samskipti, sem nú verða tekin til formlegrar athugunar, eftir að fullyrt var í frétt DV að Stefán hefði sagt upp störfum vegna afskipta Hönnu Birnu af rannsókninni.

Í bréfi Umboðsmanns segir að Stefán hafi þvertekið fyrir þetta og sagst hafa lýst yfir vilja sínum til að skipta um starfsvettvang. Í bréfinu er þó haft eftir Stefáni að samskipti hans við ráðherra hafi verið sett í „mjög einkennilega stöðu“ vegna rannsóknarinnar.

Hanna Birna greindi frá því í svari sínu við fyrsta bréfi Umboðsmanns að hún hafi spurt Stefán hvort honum þætti „óþægilegt“ að ræða við sig á meðan rannsókn á ráðuneyti hennar stóð og hann hafi sagt að svo væri ekki. Í samtali við fjölmiðla í kjölfarið sagðist Stefán ekki gera neinar athugasemdir við þessa frásögn Hönnu Birnu.

Að því er fram kemur í nýju bréfi Umboðsmanns, útskýrði Stefán þetta frekar í viðtali sínu við umboðsmann. Þar segir hann að þótt hann hafi engar athugasemdir gert við frásögn ráðherra þýði það ekki að hann hafi engu við hana að bæta.

„Ég held að það sem kemur fram í bréfinu geti alveg staðið eitt og sér, en það eru kannski ýmsar viðbætur og viðbótarupplýsingar og annað af minni hálfu, en ég geri ekki athugasemdir við það sem kemur fram í bréfinu,“ er haft eftir Stefáni í bréfi Umboðsmanns.

Líkt og fram hefur komið, hefur Hanna Birna harðlega gagnrýnt þetta nýjasta bréf Umboðsmanns og sagt að í því sé reynt að gera samtöl hennar við lögreglustjóra tortryggileg.


Tengdar fréttir

Stefán leitaði til ríkissaksóknara

Stefán Eiríksson, fráfarandi lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, hafði samband við ríkissaksóknara þar sem fyrirspurnir ráðherra hafi verið á þann veg að hann þurfti að afla upplýsinga um rannsóknina á lekamálinu.

Stefán segir aðstoðarmenn Hönnu Birnu hafa beðið sig um að neita frétt DV

Stefán Eiríksson, fráfarandi lögreglustjóri, tjáði Umboðsmanni Alþingis að aðstoðarmenn Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra, þau Gísli Freyr Valdórsson og Þórey Vilhelmsdóttir, hafi haft samband við sig og beðið hann um að neita fréttaflutningi DV um samskipti sín við ráðherra.

Segir Hönnu Birnu hafa spurt út í samskipti sín við umboðsmann Alþingis

Stefán Eiríksson segir að Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra hafi spurt sig hvort hann hafi haft samband við umboðsmann Alþingis vegna fyrirspurna umboðsmanns til Hönnu Birnu vegna gruns um óeðlileg samskipti þeirra á milli vegna lögreglurannsóknar á lekamálinu svokallaða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×