Enski boltinn

David Silva hjá Man City til ársins 2019

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
David Silva.
David Silva. Vísir/Getty
Spænski landsliðsmaðurinn David Silva mun spila með Manchester City til 33 ára aldurs en kappinn skrifaði undir nýjan fimm ára samning sem gildir til ársins 2019. Þetta kemur fram á heimasíðu ensku meistaranna.  

David Silva hefur verið í lykilhlutverki hjá City frá því að hann kom til liðsins sumarið 2010 og hefur unnið fimm titla með félaginu þar af varð hann Englandsmeistari í annað skiptið í vor.

David Silva er nú 28 ára gamall en hann spilaði fjögur tímabil með Valencia áður en hann kom til Manchester. Hann var með 7 mörk og 9 stoðsendingar í 28 leikjum í ensku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð en var með 15 stoðsendingar þegar City vann titilinn fyrir tveimur árum.

„Manchester City varð strax eins og mitt annað heimili þegar ég kom hingað fyrir fjórum árum. Ég er mjög sáttur hjá City, bæði fótboltalega og persónulega. Ég vil því halda áfram að vinna titla með þessu frábæra félagi," er haft eftir David Silva á heimasíðu Manchester City.

David Silva hefur skorað 20 mörk í 83 landsleikjum með Spáni en hann varð í öllum þremur titlum Spánverja frá 2008 til 2012 (EM 2008, HM 2010 og EM 2012).

Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×