Innlent

Hanna Birna um DV: Ég held að þeir trúi þessu

Bjarki Ármannsson skrifar
Hanna Birna hefur áður gagnrýnt Reyni Traustason fyrir fréttaflutning DV af lekamálinu.
Hanna Birna hefur áður gagnrýnt Reyni Traustason fyrir fréttaflutning DV af lekamálinu.
Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra segir í viðtali í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun að umræðan um lekamálið hafi verið mjög einhliða. Hún gagnrýnir fréttaflutning DV af málinu, sem hún segir engan fót fyrir.

„Ég á að hafa hótað þingmönnum. Ég á að hafa haft afskipti af ráðningum hjá lögreglunni. Ég á að hafa hótað Rauða Krossinum. Ég á að hafa strokið út af þingi til að forðast fyrirspurnir. Ég á að hafa skammað starfsfólk. Ég veit ekki hvað ég á ekki að hafa gert,“ segir Hanna Birna.

Hún nefnir það að Reynir Traustason, ritstjóri DV, hafi sagt ætla „í“ Hönnu Birnu og aðstoðarmenn hennar og að annar þeirra hafi ákveðið að höfða mál gegn blaðinu. Greint var frá því á sínum tíma að bæði Þórey Vilhjálmsdóttir, aðstoðarmaður Hönnu Birnu, og Reynir sökuðu hvort annað um að hafa hringt ógeðfelld símtöl vegna málsins.

„Ég held að einhversstaðar uppi á ritstjórn DV, þá trúi þeir þessu,“ segir Hanna Birna. „Þeir trúi því að ég hafi sest niður og sagt, nú ætla ég einhvern veginn að skipuleggja einhverja atburðarás í kringum þennan hælisleitanda.“

Hún segir fréttamenn blaðsins hafa dæmt í málinu fyrir löngu síðan og unnið út frá því.

„Það er bara eitthvað sem blaðið verður að eiga við sig,“ segir hún. „Ég veit ekki hvað þeim gengur til, annað en að þeir telji sig vera að varpa einhverju ljósi á mál. En mér finnst þeir gera það með afar ósanngjörnum hætti. Og ómálefnalegum hætti og meiðandi hætti.“

Þetta og meira má heyra í seinni hluta viðtals Sigurjóns M. Egilsonar við Hönnu Birnu í spilaranum hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir

Þórey sögð með réttarstöðu grunaðs manns

Þórey Vilhjálmsdóttir, aðstoðarmaður Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra, er sögð vera sú sem lak umdeildum minnisblaði um hælisleitandann Tony Omos.

Þórey í mál við DV

Alvarleg ósannindi í umfjöllun DV varðandi hennar þátt í leka minnisblaðsins um hælisleitandann Tony Omos.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×