Innlent

Ráðherra sem hefur glatað trausti tekur pokann sinn

Heimir Már Pétursson skrifar
Bjarni Benediktsson og Hanna Birna Kristjánsdóttir
Bjarni Benediktsson og Hanna Birna Kristjánsdóttir Vísir/Stefán
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir liggja í hlutarins eðli að allir ráðherrar í ríkisstjórn njóti trausts á meðan þeir sitji og Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra sitji með fullum stuðningi í ríkisstjórn eins og aðrir ráðherrar.

Í viðtali við Mbl.is í dag segir Bjarni það hins vegar álitamál hvort ráðherra beri að víkja undir rannsókn máls. Hann segir fráleitt að hann ætti að þurfa að gefa út traustyfirlýsingu á innanríkisráðherra í hverju skrefi málsins.

„Ráðherra sem situr er með fullt traust til þess að gegna sínu starfi. Ráðherra sem hefur glatað trausti tekur pokann sinn. Ég á mjög erfitt með að skilja kröfu um að reglulega sé verið að biðja mig um gefa út einhverjar traustsyfirlýsingar,“ segir Bjarni Beneditksson á Mbl.is.

Bjarni segir umræðuna um lekamálið áhyggjuefni. Hann hafi enn ekki séð ástæðu fyrir ráðherra til þess að stíga til hliðar.

„En mér er umhugað um að málið gangi þannig fram að engri rýrð verði varpað á rannsóknina sjálfa og þá niðurstöðu sem fæst. Í þessu tilliti er umræðan ein og sér alltaf ákveðið áhyggju¬efni. Þetta er nokkuð sem ráðherra hefur þurft að meta sjálfur og ég ætla ekki að blanda mér í það mat," segir Bjarni Benediktsson.

Fréttastofa hefur gert tilraunir til að fá viðtal við Bjarna Benediktsson í dag en án árangurs.


Tengdar fréttir

Tvísýn staða Hönnu Birnu

Skiptar skoðanir eru um stöðu Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra innan þingflokks Sjálfstæðisflokksins. Þingmaður flokksins segir að staða Hönnu Birnu sé mjög veik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×