Viðskipti innlent

Verulegar launahækkanir í samfélaginu

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
vísir/valli
„Það eru verulegar launahækkanir og launaskrið í samfélaginu, tekjur eru að hækka, en það sem er þó mest áberandi er að í þessum flokkum hafa forstjórarnir bætt verulega við sig miðað við á síðasta ári,“ segir Jón G. Hauksson, ritstjóri Frjálsrar verslunar.

Forstjórar hafa hækkað um þrjú hundruð þúsund krónur á mánuði að meðaltali, eða um 3,6 milljónir á ári samkvæmt nýjasta tekjublaði Frjálsrar verslunar sem kom út í dag. Laun forstjóra eru að jafnaði 2,6 milljónir á mánuði og ef miðað er við síðustu tvö ár er þetta um fjögur hundruð þúsund króna hækkun á mánuði á milli ára. Sjómenn eru á svipað háum tekjum og forstjórar með 2,5 milljónir á mánuði, sem er sama fjárhæð og á síðasta ári. Þá hafa næstráðendur tekið stökk á milli ára og hækkað um sex hundruð þúsund á meðaltali á mánuði með 2,2 milljónir að jafnaði á ári. Meðallaun næstráðenda var á síðasta ári 1,6 milljón króna.

Jakob Óskar Sigurðsson forstjóri Promens er tekjuhæsti forstjóri landsins með 11.496 milljónir króna á mánuði og næsthæstur er  Jón Guðmann Pétursson fyrrverandi forstjóri Hampiðjunnar með 11.117 milljónir króna á mánuði. Kristján Vilhelmsson framkvæmdastjóri útgerðasviðs Samherja er efstur á lista næstráðenda með 17.725 þúsund og jafnframt tekjuhæsti einstaklingur landsins.

Í blaðinu eru birtar eru tekjur rúmlega 3.500 Íslendinga og um er að ræða útsvarsskyldar tekjur á árinu 2013, og þurfa þær því ekki að endurspegla föst laun viðkomandi. Munurinn getur falist í launum fyrir setu í nefndum og aukastörf og hlunnindi vegna kaupréttarsamninga.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×