Íslenski boltinn

Víkingar hafa komið sjálfum sér á óvart í sumar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tíundu umferð Pepsi- deildar karla í fótbolta lýkur annað kvöld með þremur leikjum. Nýliðar Víkinga, sem hafa komið á óvart mæta KR-ingum í Frostaskjóli.

Víkingar hafa unnið þrjá síðustu leiki sína í Pepsi-deildinni og eru eins og er í 5. sæti einu sæti neðar en Íslandsmeistarar KR.

Víkingum var ekki spáð góðu gengi í deild þeirra bestu í sumar en annað hefur komið á daginn. Guðjón Guðmundsson ræddi við Víkinginn Kristinn Jóhannes Magnússon í kvöldfréttum Stöðvar tvö en Kristinn hefur spilað vel á miðju Víkingsliðsins í sumar.

Annað kvöld mun reyna enn meira á Kristinn Jóhannes þar sem að fyrirliðinn Igor Taskovic tekur út leikbann. Guðjón spurði Kristinn hvort Víkingar hafi komið sjálfum sér á óvart.

„Já, ég myndi segja það miðað við það að vera nýliðar í deildinni og vera með tiltölulega óbreyttan mannskap frá því í fyrra. Við höfum fengið þrjá, fjóra mjög góða leikmenn til okkar en að megninu til er þetta bara sama lið og var að spila í 1. deildinni í fyrra," sagði Kristinn og bætti við:  

„Það er mikill getumunur á þessum deildum og okkur var spáð fallsæti af flestum. Þetta hefur því gengið vonum framar hjá okkur," sagði Kristinn.

Öll frétt Guðjóns Guðmundssonar um Víkingsliðið og leikina í Pepsi-deildinni á morgun er nú aðgengileg með því að smella hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×