Viðskipti innlent

„Ég hef aldrei framið umboðssvik gegn Kaupþingi eða nokkrum öðrum“

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Frá fyrirtökunni í héraði í morgun.
Frá fyrirtökunni í héraði í morgun. Vísir/KTD

Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings í Lúxemborg, og Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, lýstu yfir sakleysi sínu vegna ásakanna um meiriháttar umboðssvik í morgun. Fyrirtaka í málinu fór fram í Héraðsdómi Reykjavíkur.

Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings sem einnig er ákærður í málinu, var sá eini sem var viðstaddur þingfestinguna í síðasta mánuði. Neitaði Hreiðar Már sök líkt og Magnús og Sigurður sem tóku afstöðu til málsins í dag.

Þremenningarnir eru ákærðir í þriðja sinn af sérstökum saksóknara en ákæran er vegna tugmilljarða lánveitingar vegna viðskipta með skuldatryggingar fyrir hrun.

Þeim er gert að hafa misnotað stöðu sína sem stjórnendur bankans í lánveitingum til nokkurra eignarhaldsfélaga sem voru í eigu vildarviðskiptavina bankans. Lánin voru svo notuð til að kaupa skuldatryggingar á Kaupþings banka, eða svokölluð Credit Linked Notes, með það fyrir augum að lækka skuldatryggingarálag bankans í aðdraganda bankahrunsins árið 2008. Í ákærunni kemur fram að lánin hafi numið tugum milljarða króna.

„Ákæran er algjörlega röng. Ég hef aldrei framið umboðssvik gegn Kaupþingi eða nokkrum öðrum,“ sagði Sigurður fyrir dómi í dag. Magnús sagðist saklaus þegar hann var spurður um afstöðu sína. Ákæruna í heild sinni má lesa hér að neðan.

Þá kom fram fyrir dómi að Hreiðar Már hefði óskað eftir því að málinu yrði vísað frá vegna brota á 6. grein Mannréttindadómstólsins og 70. greinar stjórnarskrár. Ákæruvaldið mótmælti kröfunni.

Málflutningur um frávísunarkröfuna mun fara fram þann 8. september.


Tengdar fréttir

Sakaðir um umboðssvik vegna lána til vildarvina

Ákæra á hendur fyrrverandi stjórnendum Kaupþings, þeim Hreiðari Má Sigurðssyni, Sigurði Einarssyni og Magnúsi Guðmundssyni fyrir umboðssvik, verður þingfest í dag í Héraðsdómi Reykjavíkur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×