Íslenski boltinn

Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Fram - Stjarnan 1-2 | Jeppe kveður með stæl

Stefán Árni Pálsson skrifar
Jeppe Hansen skoraði bæði mörkin.
Jeppe Hansen skoraði bæði mörkin. Vísir/Daníel
Stjarnan vann magnaðan sigur á Fram, 2-1, í Pepsi-deild karla í kvöld en Framarar komust 1-0 yfir í leiknum en Stjörnumenn komu til baka og gerðu tvö mörk. Gestirnir úr Garðabæ léku einum leikmanni færri í nánast klukkustund í kvöld en þeir fengu rautt spjald í fyrri hálfleiknum. Jeppe Hansen skoraði bæði mörk Stjörnunnar í kveðjuleik sínum.

Leikurinn hófst heldur fjörlega en heimamenn í Fram voru aðeins þrjár mínútur að skora fyrsta markið. Þar var að verki Ásgeir Marteinsson sem þrumaði boltanum í netið rétt fyrir utan teig, alveg óverjandi fyrir Ingvar Jónsson í marki Stjörnunnar. Markið kom eins og köld vatnsgusa fyrir gestina sem ætluðu sér greinilega að jafna metin strax.

Stjörnumenn fengu nokkur ákjósanleg færi í fyrri hálfleiknum en Ögmundur Kristinsson, markvörður Fram, var alltaf vel vakandi í rammanum og varði nokkrum sinnum virkilega vel.

Þegar tíu mínútur voru eftir kom annað áfall fyrir gestina úr Garðabæ en Atli Jóhannsson fékk þá að líta beint rautt spjald fyrir grófa tæklingu á Hauk Baldvinsson sem lá óvígur í nokkrar mínútur eftir. Rétt ákvörðun hjá Þorvaldi Árnasyni, dómara leiksins. Stjörnumenn voru heldur vankaðir eftir spjaldið og náði ekki að setja mark sitt á leikinn fyrir hálfleik. Staðan var því 1-0 eftir 45 mínútur.

Stjörnumenn komu virkilega ákveðnir til leik í síðari hálfleiknum og það mátti ekki sjá að þeir væru einum leikmanni færri. Liðið ógnaði ítrekað að marki Fram sem endaði með frábæru marki frá Jeppe Hansen, framherja liðsins. Hann fékk boltann rétt fyrir utan vítateig Framara, tók snyrtilegan snúning framhjá Jóhannesi Karli í vörn Fram og lagði boltann frábærlega í netið. Jeppe hafði þá skorað í fjórum leikjum í röð í Pepsi-deildinni.Markið hafði heldur betur legið í loftinu og Garðbæingar ætluðu sér greinilega að ná í stigin þrjú því þeir héldu áfram pressunni.

Stjörnumenn náðu því að skora annað mark á 82. mínútu leiksins og kom það eftir hornspyrnu. Aftur var það Jeppe Hansen sem kom boltanum í netið af miklu harðfylgi. Veigar Páll tók hornspyrnu og boltinn barst til Jeppe sem snéri baki í markið og kom boltanum einhvernvegin í netið. Ótrúlega vel gert hjá Jeppanum sem fór mikinn á vellinum í kvöld. Jeppe er því að kveðja Stjörnumenn einstaklega vel í kvöld en samningur hans við Stjörnuna rennur út um mánaðarmótin en hann er búinn að semja við Frederica í dönsku B-deildinni.

Stjörnumenn unnu að lokum leikinn eftir magnaðan leik. Þeir voru einum leikmanni færri frá 35. mínútu leiksins og gerðu ótrúlega vel í síðari hálfleiknum.

Stjarnan er því komið með 22 stig í deildinni og hafa ekki enn tapað leik. Framarar eru sem fyrr með níu stig.

Rúnar: Hrikalegt að missa Jeppe„Þetta var bara æðislegt, þvílíkur karakter í liðinu,“ segir Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Stjörnunnar, eftir leikinn.

„Við ákváðum í hálfleik að fara hærra á þá og setja enn meiri pressu, þrátt fyrir að vera einum leikmanni færri.“

Rúnar segir að mörkin frá Jeppe í kvöld hafi verið frábær og þá sérstaklega það fyrra.

„Það er hrikalegt fyrir okkur að missa hann á þessum tímapunkti en það verður bara að koma maður í manns stað.“

Jeppe: Fallegasta mark sem ég hef skorað, hlakka til að sjá það í sjónvarpinu„Ég get ekki kvatt Stjörnuna á betri hátt,“ segir Jeppe Hansen eftir leikinn.

„Tvö mörk og algjör liðssigur í kvöld. Þetta var frábært kvöld fyrir okkur. Við vorum ekki góðir í upphafi leiksins en eftir það fannst mér liðið alltaf sýna betri takta en Framarar.“

Fyrra mark Jeppe var að dýrari gerðinni og virkilega flott, hans langfallegasta í sumar.

„Þetta er án efa fallegasta mark sem ég hef skorað á ferlinum. Ég hlakka til að sjá markið aftur í sjónvarpinu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×