Íslenski boltinn

Enn heldur Leiknir hreinu | Vandræði Grindvíkinga halda áfram

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Freyr Alexandersson og Davíð Snorri Jónasson og lærisveinar þeirra hafa byrjað tímabilið vel.
Freyr Alexandersson og Davíð Snorri Jónasson og lærisveinar þeirra hafa byrjað tímabilið vel. Vísir/Valli
Tveimur leikjum er lokið í 1. deild karla í knattspyrnu.

Leiknir R. bar sigurorð af Víkingi Ó. með tveimur mörkum gegn engu í stórleik umferðarinnar. Sindri Björnsson skoraði fyrra markið á 70. mínútu og Matthew Horth það síðara í uppbótartíma.

Með sigrinum komst Leiknir á topp deildarinnar, allavega um stundarsakir, en ÍA getur endurheimt toppsætið sigri liðið BÍ/Bolungarvík í leik sem hófst kl. 15:00.

Þetta var í sjötta sinn sem Leiknir heldur hreinu í deildinni í sumar, en liðið hefur aðeins fengið á sig þrjú mörk í átta leikjum.

Vandræði Grindvíkinga halda áfram, en liðið tapaði 1-2 fyrir nýliðum HK á heimavelli.

Davíð Magnússon kom HK yfir á 40. mínútu en Joseph David Yoffe jafnaði metin á 54. mínútu. Það var síðan Guðmundur Atli Steinþórsson sem skoraði sigurmark HK-inga úr vítaspyrnu á 78. mínútu, en þetta var sjötta mark Guðmundar í deildinni í sumar.

Grindvíkingar sitja í 11. og næstsíðasta sæti með aðeins fimm stig, en HK er í 5. sæti með 14 stig.

Upplýsingar um úrslit og markaskorara eru fengnar af urslit.net.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×