Bíó og sjónvarp

Angelina Jolie reitir Kínverja til reiði

Angelina Jolie
Angelina Jolie Vísir/Getty
Kínversk stjórnvöld gerðu undanþágu fyrir Angelinu Jolie á sínum tíma, þegar þau veittu unnusta hennar, stórleikaranum Brad Pitt, leyfi til þess að koma inn í landið til þess að kynna nýjustu kvikmynd Jolie, Maleficent. Brad Pitt hafði áður verið bannaður í Kína eftir að hafa tekið upp kvikmyndina Seven Years in Tibet. Nú er annar tónn í Kínverjum.

The Independent greindi frá því að Jolie væri nú umdeild í Kína, eftir að hafa sagt að kvikmyndaleikstjórinn Ang Lee væri frá Taívan en ekki Kína á blaðamannafundi vegna Maleficent. Á fundinum, sem var í Shanghai, var hún beðin um að nefna uppáhalds kínverska leikstjórann sinn, en Jolie svaraði:

,,Ég er ekki viss hvort þið teljið Ang Lee kínverskan, hann er frá Taívan en hann hefur gert margar myndir á kínversku, með kínverskum listamönnum og leikurum, og ég held að þær myndir séu þær sem ég þekki best og finnst góðar úr hans smiðju."

Ummælin vöktu mikla athygli í kínverskum fjölmiðlum og misjafnlega var tekið í þá staðhæfingu Jolie að Lee væri frá Taívan.

,,Með því að gefa í skyn að Taívan og Kína séu aðskilin lönd varð annars mjög snjöll kona að aðhlátursefni," sagði einn kínverskur notandi á Weibo, sem er kínverska útgáfa Twitter. Annar kallaði Jolie ,,sturlaða stuðningskonu sjálfstæðis Taívan." Aðrir hótuðu að sniðganga kvikmyndir Jolie.

Sömu sögu er ekki að segja frá Taívan, en þar fögnuðu margir ummælum Jolie og hefur hún án efa fengið glænýjan hóp aðdáenda þaðan.

Taívan klofnaði frá Kína þegar þáverandi Kínastjórn flúði þangað eftir byltingu kommúnista árið 1949. Allar götur síðan hafa stjórnvöld bæði í Taívan og Kína talið sig geta gert tilkall til þess að teljast hin eina sanna stjórn Kína.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×