Innlent

Icewear virðir ekki fyrirmæli og er nú undir eftirliti

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Drífa ehf. selur fatnað undir merkjum Icewear og Norwear.
Drífa ehf. selur fatnað undir merkjum Icewear og Norwear.
Fyrirtækið Drífa ehf., sem selur fatnað undir merkjum Icewear og Norwear, hefur enn ekki bætt úr merkingum á fatnaði sínum. Tíu mánuðir eru liðnir frá því að Neytendastofa dæmdi þær ólöglegar. Því mun Neytendastofa nú hafa eftirlit með fyrrnefndum vörum fyrirtækisins. Samtök iðnaðarins telja Neytendastofu ekki hafa sinnt lögbundnu hlutverki sínu nægilega vel.

„Brot Drífu ehf. fólust í því að gefa til kynna að ullarvörur sem að fyrirtækið selur væru íslenskar og framleiddar úr íslenskri afurð,“ að því er segir í tilkynningu frá Samtökum iðnaðarins. En fyrirtækið mátti ekki nota slíkar merkingar, til að mynda límmiða með íslenska fánanum, án þess að það væri skýrt hvaðan varan kæmi í raun. Samtök iðnaðarins hafa lagt mikið upp úr því að ljóst sé hvernig vörur sem auglýstar eru frá Íslandi séu íslenskar.

Eftir að Neytendastofa komst að þeirri niðurstöðu að Drífu ehf. væru merkingarnar ólöglegar tók fyrirtækið til við að líma yfir íslenska fánann með merki fyrirtækisins en það var ekki talið nægjanlegt. En fallist var á að fullnægjandi væri að bæta textanum „Designed in Iceland“ á þvottaleiðbeiningar. Með þannig aðgerðum væri fyrirtækið að virða ákvörðun Neytendastofu.

Eftir fjölmargar ábendingar til Samtaka iðnaðarins er ljóst að ekki hefur verið bætt úr merkingum á öllum fatnaði Icewear. Því er fyrrnefnt eftirlit Neytendastofu talið nauðsynlegt. Samtök iðnaðarins ávíta Neytendastofu í tilkynningu sinni: „Það verður einnig að teljast með öllu óliðandi að eftirlitsstofnanir sinni ekki sínu lögbundna eftirlitshlutverki. Sá mikli dráttur sem hefur orðið á meðferð málsins hjá Neytendastofu er óásættanlegur.“ 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×