Skoðun

Stofnendur Eirar gangist við ábyrgð

Sigrún Pálsdóttir skrifar
Eitt af þeim málum sem farið hefur ofurhljótt í samfélaginu er nauðasamningur Eirar við íbúa í á annað hundruð öryggisíbúðum í Reykjavík og Mosfellsbæ. Þegar málið er skoðað setur mann hljóðan því með samningnum á nú gamla fólkið að taka á sig kostnaðinn af vítaverðri vanrækslu þeirra sem stofnuðu Eir og þeirra sem báru umsjónarábyrgð á rekstrinum og sigldu stofnuninni í strand. Í fjölmiðlum hefur verið sagt frá því að með nauðasamningnum sem gengið var frá í janúar sl. hafi óvissunni um framtíðarrekstur öryggisíbúða Eirar verið eytt en með honum var því afstýrt að gamla fólkið væri borið út úr íbúðum sínum og sett á guð og gaddinn í kjölfar uppboðs.

Staðreyndin er sú að með nauðasamningnum var Eir fyrst og fremst bjargað af gamla fólkinu, íbúðarréttarhöfunum. Með honum er í raun staðfest sú eignaupptaka sem átti sér stað þegar stjórn Eirar veðsetti öryggisíbúðirnar upp í topp á árunum 2007 til 2010. Íbúðarrétti sem naut verndar eignaréttarákvæðis stjórnarskrárinnar var með samningnum breytt í leigu. Nær allir sem keyptu sér íbúðarrétt í öryggisíbúðum á Eir, lögðu stærstan hluta, ef ekki allan ævisparnað sinn í þau kaup, stundum einnig með fjárhagslegri aðstoð ættingja. Kaupverð íbúðarréttarins sem skyldi endurgreiðast í einu lagi við brottflutning í lifanda lífi eða við andlát á nú að endurgreiða með allt að 30 ára skuldabréfi. Íbúðarréttargreiðslan verður því ekki að fullu endurgreidd fyrr en árið 2044! Skuldabréfin verða ekki tryggð með veði og ekki er gert ráð fyrir að þriðji aðili taki ábyrgð á greiðslu þeirra. Slíkir pappírar eru verðlausir í viðskiptum og verða því hvorki nýttir af íbúunum, ef þeir vildu flytja annað né af erfingjunum til að greiða upp lán sem margir hverjir hafa tekið til að kaupa íbúðarrétt fyrir foreldra sína.

Það hljóta allir að sjá að þetta er hvorki boðleg né sanngjörn lausn. Eitt er víst að það er ekki gamla fólkið sem keypti sér íbúðarrétt hjá Eir sem ber ábyrgð á greiðsluþrotinu. Ábyrgðin liggur hjá þeim opinberu og hálfopinberu aðilum sem standa að Eir. Það var á þeirra vakt sem starfsreglur og stjórnskipulag var samþykkt fyrir Eir. Stjórnskipulag sem var svo gallað að stjórnendur gátu í a.m.k. 4 ár brotið gegn íbúðarrétti skjólstæðinga sinna óátalið með því að stofna til eignaréttinda þriðja aðila með veðsetningu.

Það er kominn tími til að Mosfellsbær, Reykjavíkurborg og aðrir sem bera lagalega og siðferðislega ábyrgð á vanrækslu umsjónaraðila Eirar viðurkenni þá ábyrgð í verki. Það geta þeir gert með því að gangast í ábyrgð fyrir 30 ára skuldabréfunum því aðeins þannig verða þau seljanleg og geta nýst íbúum eða erfingjum strax við útgáfu. Umsjónaraðilar hafa staðhæft að rekstur Eirar hafi nú verið tryggður. Því verður fjárhagsleg áhætta ekki notuð sem skálkaskjól til að hafna slíkri ábyrgð.

Það er ekkert í lögum sem kemur í veg fyrir að sveitarfélög taki ábyrgð á tjóni sem þau með vanrækslu hafa valdið.

Íbúahreyfingin vill að Mosfellsbær gangist við ábyrgð sinni og hafi forgöngu um að gamla fólkið eigi áhyggjulaust ævikvöld.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×